Tinni 2 enn á teikniborðinu

Steven Spielberg, leikstjóri Tinna myndarinnar sem frumsýnd var árið 2011, segist ekki vera búinn að slá hugmyndir um mynd númer 2 útaf borðinu.

Tinni á fjölmarga aðdáendur hér á Íslandi sem vafalaust fagna þessum fréttum, enda er af nógu að taka í sagnaheimi hins unga og ákafa blaðamanns Tinna og vinar hans Kolbeins Kafteins.

Steven Spielberg var og er einnig mikill Tinna aðdáandi, og það var þessvegna sem hann tryggði sér kvikmyndaréttinn að sögunum á níunda áratug síðustu aldar.

Þó að Spielberg sjálfur hafi leikstýrt fyrstu myndinni, þá var alltaf gert ráð fyrir að Lord of the Rings leikstjórinn Peter Jackson myndi leikstýra mynd númer tvö.  Margir voru svartsýnir á að ný mynd yrði gerð þar sem sú fyrri náði ekki þeirri aðsókn í bíó sem búist var við, og einnig hafa þeir Spielberg og Jackson ávallt mörg járn í eldinum, sem gerir þeim erfitt fyrir að smeygja nýrri og tímafrekri Tinnamynd inn í prógrammið.

En nú eru blikur á lofti.  Steven Spielberg var á dögunum í viðtali hjá Premiere vefsíðunni, og þar gefur hann nýjar vonir um gerð myndarinnar, en líklega verði menn þó að bíða í nokkur ár eftir henni.

„Peter Jackson verður að gera næstu kvikmynd. Eðlilega, ef allt fer samkvæmt áætlun, þá mun hann hefja vinnu við handritið innan skamms. Þar sem að öll teiknivinnan fyrir myndina tekur um tvö ár, þá myndi ég segja að fólk yrði að bíða í að minnsta kosti þrjú ár eftir að sjá myndina í bíó. En Peter mun gera þetta. Tinni er ekki dauður!,“ sagði Spielberg í viðtalinu.

Sjáðu stiklu úr fyrstu myndinni hér fyrir neðan og rifjaðu upp ævintýrin: