Timberlake snýr aftur

Popptónlistarmaðurin og leikarinn Justin Timberlake, sem gaf út hljómplötu í fyrra og hefur ekki leikið stórt hlutverk í kvikmynd síðan hann lék í Woody Allen myndinni Whonder Wheel árið 2017, ætlar nú að snúa aftur á hvíta tjaldið í dramakvikmyndinni Palmer, en tökur hennar eiga að hefjast nú í haust, samkvæmt frétt í The Hollywood Reporter.

Timberlake á sundskýlunni í Wonder Wheel.

Fisher Stevens, sem er best þekktur fyrir heimildarmyndir, þar á meðal Leonardo DiCaprio myndina Before the Flood, og Netflix þáttinn Dirty Money, mun leikstýra myndinni eftir handriti Cheryl Guerriero. Handritið var á hinum svokallaða svarta lista í Hollywood, og birtist þar fyrst árið 2016. Svarti listinn er byggður á skoðanakönnun, meðal kvikmyndafólks í Hollywood, og inniheldur handrit að kvikmyndum sem flestum líkar við, en hafa enn ekki orðið að bíómyndum.

Palmer fjallar um fyrrum menntaskóla-ruðningsstjörnuna Eddie Palmer, sem Timberlake leikur, sem snýr heim í gamla heimabæinn eftir fangelsisvist. Fortíðin eltir hann uppi við heimkomuna, en hann tengist einnig ungum dreng traustum böndum, sem var yfirgefinn af móður sinni.

„Justin og Fisher gera þessari tilfinningaþrungnu sögu hljómmikil skil. Þetta er saga sem passar vel inn í samtímann, og er einnig dæmisaga um það hverju manngæska getur komið til leiðar,“ segja forstjórar framleiðslufyrirtækisins SK Global, John Penotti og Charlie Corwin í tilkynningu.

Nýjasta mynd Timberlake er teiknimyndin Trolls World Tour, sem kemur í bíó næsta vor.