The Toxic Avenger (1984)

Sælir kæru lesendur. Nú er föstudagur langt kominn, og ætla ég að skella inn einni umfjöllun. Ég ætla að rita aðeins um mynd sem heitir The Toxic Avenger. Þetta er hryllings – grínmynd frá 1984, og er með bestu ef ekki besta TROMA mynd allra tíma, að minnsta kosti sú þekktasta.

                                                   The Toxic Avenger

Melvin Junko (Mark Torgl) er vandræðalegur moppustrákur sem starfar í heilsuklúbbnum í Tromaville. Vinsælu krakkarnir eru ekki hrifnir af honum, og búa því til hrekk á hans kostnað. Þessi tiltekni hrekkur mistekst, og breytist Melvin í ljótustu ofurhetju allra tíma (The Toxic Avenger/Toxie) eftir að hafa fallið ofan í tunnu, fulla af eitruðum úrgangi.

TTA

Þessi söguþráður er gríðarlega skemmtilegur, og ætti að mínu mati að halda fólki við skjáinn allan tímann þrátt fyrir lítinn áhuga á eldri kvikmyndum. Það er alltaf eitthvað að gerast. Þetta er ein af þessum gömlu myndum sem fær fólk til að hlæja þegar það á að hlæja, annað en þegar ég fór á The Evil Dead (1981) í bíó í fyrra skiptið og það var ókynþroska stelpa í sömu röð og ég, grátandi hástöfum úr hlátri yfir hverju einasta atriði, einungis vegna þess að myndin leit hlægilega út fyrir hinn nútíma krakka sem tekur bara Kevin James maraþon. Allavega, myndin gerist hér og þar um Tromaville, það sem var áður Melvin rífur í sig krimma allstaðar um bæinn. Myndin er annars ekki dimm eða drungaleg, nema á sinn hátt einstaka atriði. Leikurinn er gríðarlega góður, Mark Torgl sem Melvin er klassískur. Torgl býr til svo vandræðalegan og skrítinn karakter að allir sem hafa áhuga á þessari mynd virkilega elska hann á sinn eigin máta. Lloyd Kaufman & Michael Herz leikstýrðu myndinni, og gera þeir það mjög svo vel. Kaufman er virkilega undirmetinn leikstjóri. Myndin er sömuleiðis tekin skemmtilega upp, og eru margir flottir rammar í myndinni. Tæknibrellurnar eru virkilega flottar í þessari mynd, umbreytingin úr Melvin yfir í Toxie er flott, og er atriðið þar sem Melvin fer í bað með vonir um að slá á einkennin klassískt. Klipping myndarinnar er til fyrirmyndar, og tónlistin sömuleiðis.

Ef þú ert B-mynda áhugamaður þá get ég ekki mælt nógu mikið með þessari mynd. Þessi mynd ætti þó að mínu mati að vera á áhorfslista hvers einasta kvikmyndaáhugamanns. Að mínu mati er þetta drottning B-myndanna, og er þetta ein af uppáhalds myndunum mínum. Bíó Paradís er að sýna Child’s Play annað kvöld, á að skella sér?