Hinn dularfulli Terrence Malick hefur á síðustu 40 árum gert 6 kvikmyndir, og þar af fóru 20 ár í algert aðgerðaleysi er Malick lét sig hverfa á milli Days of Heaven (1978) og The Thin Red Line (1998). Nú síðast sendi hann frá sér hina umdeildu The Tree of Life, er aðeins 6 ár voru síðan að hann gerði The New World og hún virðist hafa hleypt nýju lífi í kallinn. Nú er hann með að minnsta kosti fjórar nýjar myndir í vinnslu, sem er alveg fáránlegt.
Fyrst ber að nefna I-MAX heimildamyndina The Voyage of Time, sem við höfum heyrt um síðan áður en The Tree of Life fór af stað, og var á tímabili hugsuð sem tvíburamynd hennar, við vitum samt ekki stöðuna á þeirri mynd og hvenær hún mun líta dagsins ljós. Önnur mynd sem við höfum vitað um í dálítinn tíma er „Untitled Terrence Malick Project“ sem hefur verið kölluð Burial. Þessa mynd tók Malick upp stuttu eftir The Tree of Life, og er með Ben Affleck, Rachel McAdams, Olga Kurelyenko og Javier Bardem í aðalhlutverkum. Hún er sögð fjalla um ástarþríhyrning, og gerast í samtímanum, sem er þá í fyrsta skipti sem Malick gerir slíka mynd.
Fréttir höfðu svo borist að Malick væri að vinna í enn einu verkefninu með Christian Bale, er myndir af þeim við tökur láku út. Það hefur nú verið staðfest, og er Bale ekki að leika í einni, heldur tveimur Malick myndum sem verða teknar báðar í einu á næstu mánuðum. Í Lawless munu ásamt Bale leika Ryan Gosling, Cate Blanchett og Rooney Mara, og í Knights of Cups munu einnig Bale og Blanchett fara með hlutverk, ásamt Isabel Lucas. Þetta verður spennandi