Taron Egerton verður ekki í Kingsman 3

Breski leikarinn Taron Egerton mun ekki snúa aftur í hlutverki Eggsy í næstu Kingsman kvikmynd, þeirri þriðju í röðinni. Egerton staðfesti þetta í samtali við Yahoo Movies UK , í viðtali vegna nýjustu myndar hans Robin Hood.

„Ég veit ekki hvort þetta er orðið opinbert, en ég held að ég megi segja þetta. Ég mun ekki leika í næstu Kingsman kvikmynd,“ sagði Egerton.

„Það þýðir ekki að ég sé alfarinn úr myndaflokknum. Ég var með Matthew [ Vaughn leikstjóra myndarinnar] á dögunum, og við erum enn miklir mátar og samstarfsmenn, en næsta Kingsman saga verður án mín.“

Egerton lék leyniþjónustunýliðann Gary „Eggsy“ Unwin í fyrstu kvikmyndinni, Kingsman: The Secret Service, sem frumsýnd var árið 2014. Hann sneri svo aftur í hlutverkinu fyrir Kingsman: The Golden Circle sem frumsýnd var á síðasta ári.

Þessi breska njósnasería, sem er einnig með þá Colin Firth og Mark Strong í stórum hlutverkum, er byggð á samnefndum teiknimyndasögum frá Millarworld, sem fjallar um heiðursmenn sem bjarga heiminum undan illvirkjum og þorpurum.

Þriðja Kingsman myndin hefur fengið staðfestan frumsýningardag, 9. nóvember 2019.  Í henni verður sjónum beint að verkefnum leyniþjónustunnar snemma á tuttugustu öldinni. Ný ung persóna að nafni Conrad verður kynnt til sögunnar, sem vill berjast í fyrri heimsstyrjöldinni. Einnig bætist við ný persóna, sem sagt er að verði leikin af Ralph Fiennes.

Egerton segist hafa spjallað við Vaughn um efni þriðju myndarinnar, og sé ánægður með það sem hann hafi heyrt. „Hugmyndir hans fyrir þessa nýju mynd eru ótrúlega spennandi,“ sagði leikarinn. „Ég er leiður yfir því að geta ekki tekið þátt í þessu, en Eggsy mun snúa aftur síðar.“

Hægt verður að berja Taron Egerton augum í hlutverki Hróa hattar frá og með 7. desember næstkomandi, þegar Robin Hood verður frumsýnd hér á landi.