Tarantino leikur B-mynda leikstjóra

tarantinoLeikstjórinn og leikarinn Quentin Tarantino mun leika aðalhlutverkið í mynd sem Joe Dante ætlar að gera um ævi Roger Corman, The Man with Kaleidoscope Eyes.

Myndin fór næstum því í framleiðslu, samkvæmt Movieweb.com, árið 2010, en þá átti Colin Firth að leika þennan goðsagnakennda B-mynda leikstjóra.

Myndin gerist árið 1967 og fjallar um tökur Roger Corman á myndinni The Trip, með Peter Fonda, Bruce Dern, Dennis Hopper og Jack Nicholson í helstu hlutverkum.

Roger Corman sagði eftirfarandi um myndina, en hann mun sjálfur koma fram í gestahlutverki í myndinni:

roger corman„Þetta er sagan af því hvernig ég gerði The Trip á sjöunda áratug síðust aldar og fjallaði um LSD. Jack Nicholson fór með aðalhlutverkið í einu af sínum fyrstu hlutverkum og ég tók LSD til að ég vissi af eigin reynslu hvernig það væri. Þetta er mjög mótsagnakennt en þetta var eina bandaríska myndin sem boðið var á kvikmyndahátíðina í Cannes þetta ár. Ég leik gestahlutverk í þessari mynd um gerð myndarinnar, og leik yfirmanninn sem vildi ekki að ég myndi gera myndina.“

Handrit skrifa Michael Almereyda, Charlie Largent, Tim Lucas og James Robison.

Quentin Tarantino er reyndur leikari, en hann hefur leikið í flestum sinna eigin mynda, eins og í Reservoir Dogs, Pulp Fiction, Death Proof og Django Unchained.

Hann lék einnig í Sukiyaki Western Django, Little Nicky og From Dusk Till Dawn.