Leikstjórinn James Foley hefur yfirgefið nýjustu kvikmynd Al Pacino og Colin Farrell, sem ber heitið The Farm. Disney, sem framleiðir, voru ekki lengi að fá nýjan leikstjóra en það er Roger Donaldson ( Thirteen Days ).
Michele Rodriguez ( The Fast and the Furious ) á í viðræðum um að leika í kvikmyndinni Surf Girls. Myndi myndin fjalla um bestu brimbrettakonuna í bæ einum, ástir hennar og örlög ásamt bestu vinkonu hennar þegar þær æfa undir brimbrettakeppni eina. Í viðræðum eiga einnig Kate Bosworth ( Remember the Titans ) og Matthew Davis ( Legally Blonde ).
David Heyter sem er titlaður fyrir handritinu að X-Men, sagði í viðtali nú fyrir stuttu að X-Men 2 væri annar og stærri hluti í þriggja mynda seríu. Það hefði alltaf staðið til, og eina spurningin hefði verið hvort fyrsta myndin myndi ganga nógu vel til að réttlæta þrjár myndir. Hún gerði það, og því mega aðdáendur X-Men taka kæti sína.
Chris Carter, sá er skóp hina geysivinsælu sjónvarpsþætti X-Files, á nú í viðræðum við 20th Century Fox um að gera aðra kvikmynd byggða á þáttunum. Á myndin að standa nokkurnveginn sjálf, og tengjast geimveruþema þáttanna lítið sem ekki neitt. Þrátt fyrir að David Duchovny sé hættur að leika í þáttunum, hafa bæði hann og Gillian Anderson samþykkt að leika í kvikmyndinni ef af henni verður.
Daniel Radcliffe, sem fer með hlutverk Harry Potter í samnefndri og væntanlegri kvikmynd, mun fá um 3 milljónir dollara fyrir leik sinn í framhaldinu sem þegar er komið á fullt skrið. Þetta ku vera um þrjátíuföld sú upphæð sem hann fékk fyrir leik sinn í fyrstu myndinni.

