Stríð enda aldrei hljóðlega

furyplakatLeikarinn Brad Pitt er dulur í hlutverki sínu sem liðþjálfinn Wardaddy á fyrsta plakatinu úr kvikmyndinni Fury, sem má sjá hér til vinstri.

Myndin gerist í lok Seinni heimsstyrjaldarinnar, nánar tiltekið í apríl árið 1945. Bandamenn eru að færa sig lengra og lengra inn í Evrópu. Vígamóður liðþjálfi að nafni Wardaddy, sem Pitt leikur, er yfirmaður skriðdreka með fimm hermenn innanborðs, sem fer í lífshættulegan leiðangur yfir víglínuna. Þar lendir Wardaddy í miklu ofurefli liðs og menn hans þurfa að berjast hetjulegri baráttu til að ná að sigra óvininn.

Myndinni lýsir leikstjórinn David Ayer í stuttu máli sem rosalegri skriðdrekamynd, en í helstu öðrum hlutverkum eru Shia LaBeouf, Logan Lerman, Michael Peña og Jon Bernthal.

Um aðalleikarana segir Ayer í viðtali við People tímaritið á dögunum: „Hann leikur hörkunagla, yfirdrifinn og ákveðinn gaur … þetta er öðruvísi hlutverk en við erum vön að sjá hann í,“ segir leikstjórinn um Pitt.

„Hann er ótrúlega góður í þessu … það er ánægjulegt að vinna með honum og ég get ekki beðið eftir að vinna með honum aftur,“ segir Ayer um LaBeaouf.

Fury verður frumsýnd þann 14. nóvember næstkomandi.