Stranger Things 2 – fyrsta ljósmynd

Tímaritið Entertainment Weekly hefur birt fyrstu ljósmyndirnar úr annarri þáttaröð Netflix sjónvarpsþáttanna vinsælu Stranger Things, sem slógu eftirminnilega í gegn í fyrra. Von er á fyrstu kitlu á morgun, í auglýsingahléi Ofurskálarinnar svokölluðu ( Super Bowl ) úrslitaleiks ameríska fótboltans.

Á myndinni sjáum við Dustin, sem Gaten Matarazzo leikur, Mike, sem Finn Wolfhard leikur, og Lucas, sem Caleb McLaughlin leikur, íklædda Draugabanabúningum.

Þáttaröðin gerist árið 1984, einu ári eftir atburði fyrstu þáttaraðarinnar. Ekkert er meira vitað um söguþráðinn, en framleiðandi þáttanna, Shawn Levy, sagði að óvætturinn Demogorgon væri nú á bak og burt, en hið illa væri enn á sveimi.

Þættirnir verða frumsýndir á Netflix síðar á árinu.