Spy Kids ekki fyrsta lyktarmyndin

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Spy Kids 4 (sem þeir kalla reyndar Spy Kids 3 í fréttinni ) verði bæði í þrívídd og með sérstöku lyktarspjaldi. Þessa nýjung kalla framleiðendur 4D. Haft er eftir Guðmundi Breiðfjörð markaðsstjóra hjá Senu að þetta muni vera í fyrsta sinn sem þetta sé gert á Íslandi.

Þetta mun ekki vera alveg hárnákvæmt hjá Guðmundi, því við hjá kvikmyndir.is leituðum til „elstu manna“ og þeir bentu okkur á að lyktarspjöld hefðu verið notuð fyrst hér á Íslandi þegar Bíóbær í Kópavogi frumsýndi kvikmyndina Polyester 11. september 1983. Bíógestir fengu þá spjald með 10 mismunandi lyktum og áttu að skafa af því númeri sem birtist á tjaldinu. Þá fann fólk lykt af því sama og leikarar í myndinni fundu lykt af á hvíta tjaldinu, hvort sem það var ilmvatn eða táfýla. Þessi tækni var kölluð Odorama.

Gunnar Jósefsson eigandi Laugarásvídeós rak Bíóbæ á þessum tíma og man vel eftir Polyester. „Það var mikil stemmning þegar fólk klóraði í spjöldin,“ sagði Gunnar í samtali við Kvikmyndir.is
Polyester er einmitt hægt að leigja á Laugarásvídeó, en spjöldin er hinsvegar erfiðara að fá, en þau sjást stundum á eBay.

Polyester var hinsvegar ekki í þrívídd, en sú tækni var einmitt að reyna að fóta sig á þessum tíma með kvikmyndum eins og Friday the 13th Part III og Jaws 3-D. Því er það ekki fyrr en núna þar sem lyktar og þrívíddartæknin eru notaðar saman. Auk þess eru 30 ár nú liðin síðan Polyester kom út og því margir búnir að gleyma upplifuninni, eða voru jafnvel ekki fæddir þá. Því verður mjög spennandi að rifja það upp með því að skella sér á Spy Kids 4D.