Spider-Man og Tony Stark áfram saman

Varúð: í fréttinni eru upplýsingar úr Captain America: Civil War. Ekki lesa lengra ef þú vilt ekki vita neitt fyrirfram.

Einn af hápunktum ofurhetjumyndarinnar Captain America: Civil War er þegar nýr Köngulóarmaður er kynntur til sögunnar,  í túlkun hins unga Tom Holland.

spider

Ný mynd um köngulóarmanninn er væntanleg á næsta ári með Holland í titilhlutverkinu, og nýlega var staðfest að Robert Downey Jr. muni leika stórt hlutverk í þeirri mynd, sem Tony Stark, öðru nafni Iron Man.

Í Captain America: Civil War fáum við góðan forsmekk af því sem koma skal í þeirri mynd, þegar Tony Stark heimsækir hina ungu ofurhetju, til að fá hann í lið með sér. Þetta samband verður þróað áfram í Spider-Man: Homecoming á næsta ári.

„Við réðum leikara sem er nálægt miðskólanema í aldri,“ sagði leikstjóri Civil War, Joe Russo við IGN vefsíðuna. „Tom er í raun fyrsti ungi leikarinn til að leika Köngulóarmanninn, og hann býr yfir ótrúlegri næmni og ákveðnu sjálfstrausti, sem skapar þessa ungæðislegu og spennandi persónu.“

„Hitt sem er áhugavert er að núna er Spider-Man í Marvel heiminum, og hann getur átt samskipti við aðrar persónur í þeim heimi. Ég held að þetta kennara/nemanda samband sem Tony þróar með Peter Parker, sé líklega eitt það mest spennandi í þessum heimi á næstunni.“

Leikstjórar Captain America: Civil War eru Joe Russo og Anthony Russo, og helstu leikarar Chris Evans, Robert Downey, Jr., Scarlett Johansson, Chadwick Boseman, Tom Holland, Anthony Mackie og Sebastian Stan.