Skyggnilýsing á styrktarsýningu í Sambíóunum Egilshöll

Sambíóin ásamt Þórhalli miðli og Stöð 2 standa fyrir fjáröflunarsýningu fimmtudaginn 6. janúar nk. í Sambíóunum Egilshöll til styrktar Sjónarhóli – ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með sérþarfir.
Í fréttatilkynningu frá SAM bíóunum segir að miðaverð sé 1.500 kr og rennur allur ágóði sýningarinnar til Sjónarhóls en hægt er að kaupa miða á heimasíðu Sambíóanna sem og í miðasölu Sambíóanna um land allt.

Dagskrá kvöldsins er á þá leið að Þórhallur miðill byrjar kvöldið kl. 19 með skyggnilýsingu en að henni lokinni verður nýjasta mynd Clint Eastwoods, Hereafter forsýnd, en í þeirri mynd er fjallað um lífið eftir dauðann.

„Hereafter er nýjasta mynd leikstjórans Clint Eastwood, en með aðalhlutverkið fer Matt Damon. Segir myndin frá George, venjulegum Bandaríkjamanni sem býr þó yfir óvenjulegum hæfileikum: að geta séð inn í framhaldslífið. Hefur hann vakið töluverða frægð fyrir hæfileika sinn, en vill hann þó helst geta losnað við miðilsgáfu sína og stundar því ekki lengur að tala við hina framliðnu í þjónustu annarra.
Hinum megin á hnettinum lendir frönsk blaðakona, Marie, í hræðilegum og mannskæðum náttúruhamförum og rétt svo sleppur lifandi. Og þegar Marcus, ungur skólastrákur í London, missir manneskjuna sem er honum nánust fer af stað atburðarás sem mun leiða þessar þrjár manneskjur saman vegna trúar þeirra á það sem gerist eftir að þessu lífi lýkur. En hvaða áhrif munu þessir atburðir hafa á þetta fólk nú í lifanda lífi?“

Sjónarhóll

Til Sjónarhóls leita fjölskyldur með börn sín á ýmsum aldri og með margvísleg vandamál. Þar getur verið um að ræða vandamál tengd skóla, skort á stuðningsúrræðum, félagsleg vandamál og margt fleira.

Þjónusta Sjónarhóls er fyrir allt landið og er mikil áhersla lögð á að hingað geti allir leitað. Þjónustan er endurgjaldslaus og ekki er þörf á tilvísun eða greiningu. Á Sjónarhóli starfa ráðgjafar með foreldrum á þeirra forsendum, með það að markmiði að leita lausna á vandamálunum og styðja við bakið á foreldrum á þeirri vegferð.