Skorað á Christopher Nolan að fresta Tenet

Margir bíða óþreyjufullir eftir nýjum fregnum af komandi stórmynd leikstjórans Christopher Nolan. Þessi nýi hasartryllir leikstjórans ber heitið Tenet og ríkir mikil leynd yfir söguþræði hans en sumir í leikhópnum hafa jafnvel viðurkennt í fjölmiðlum að þeir hafi ekki hugmynd um hvað kvikmyndin fjallar um.

Eins og staðan er þegar þessi orð eru rituð er það enn á dagskrá að frumsýna þessa mynd þann 13. júlí næstkomandi. Veltur þó enn allt á framvindu kórónuveirunnar í stórum hluta heimsins. Annars þykir ekki ólíklegt að dagsetning myndarinnar verði færð, en talsmenn Sambíóanna vilja meina að ekkert sé niðurneglt, en fljótlega verði þó tilkynnt um hvort það breytist.

Nýverið stóð til hjá Sambíóunum að hefja (endur) sýningar í maímánuði á eldri kvikmyndum Nolans, þar á meðal Inception, Interstellar og The Dark Knight þríleiknum. Fyrir nokkrum vikum barst sú tilkynning að veisla þessi myndi hefjast 15. maí, en eins og glöggir hafa tekið eftir hefur þetta frestast.

Þrátt fyrir að ekki sé vitað núna hvenær sýningar á þessum myndum fara fram, fullyrða Sambíómenn í samtali við Kvikmyndir.is að þetta svokallaða Nolan-þema verði að veruleika (ásamt fleiri eldri, fjölbreyttum og klassískum myndum að þeirra sögn – meðal annars The Shining og The Shawshank Redemption). Bíða nú aðdáendur spenntir yfir að sjá hvort kvikmyndaverið Warner Bros. ákveði að bíða með frumsýningu Tenet.

Þó er hermt að Nolan vilji sjálfur ólmur að Tenet haldi sinni dagsetningu og verði fyrsta stórmyndin til að lenda á breiðum bíómarkaði eftir að reglur vegna veirunnar voru hertar. Segja ýmsir sérfræðingar þó að það muni skaða aðsókn og tekjur myndarinnar og að almenningur verði ekki reiðubúinn að sækja kvikmyndahús í júlímánuði, sérstaklega bíógestir í stórborgum vestanhafs. Þetta eigi eftir að sjást í aðsóknartölum og sé fullmikil áhætta fyrir Warner Bros.

Tenet er dýrasta mynd Nolans til þessa. Hún kostaði um 205 milljónir Bandaríkjadala í framleiðslu en með markaðskostnaði og fleiru þarf myndin að hala inn hátt í 500 milljónir dala til að lenda ekki í mínus.

Galin hugmynd

Kvikmyndavefurinn BirthMoviesDeath birti opið bréf til leikstjórans á dögunum en þar er skorað á leikstjórann og framleiðendur að fresta vinsamlegast myndinni.

Segir í bréfinu að óvissustigið sé enn fullhátt og engin kvikmynd sé þess virði að hætta lífinu fyrir. Höfundur bréfsins, Andrew Todd, er búsettur í Nýja-Sjálandi en það land hefur vakið at­hygli fyr­ir góðan ár­ang­ur í bar­átt­unni við veiruna.

„Nýja-Sjáland brást við þessu af hörku og hugrekki. Enn sem komið er hefur þetta virkað,“ segir Todd í opna bréfinu en þegar umræðan snýr beint að Christopher Nolan undirstrikar hann:

„Þú ert framúrskarandi fagmaður í kvikmyndagerð; talar reiprennandi myndmál og ert fær um að segja spennandi sögur á stórum skala. Þú átt einnig hlut í fjölgun á frumsömdum og hugmyndadrifnum vísindaskáldsögum. Á bak við stórsnjalla söguþræði myndanna þinna leynist miklu meiri sál og stærra hjarta en gagnrýnendur vilja meina. Það er út af þessari sál og þínu hjarta sem ég bið þig og vini þína hjá Warner Bros. um að hætta í andskotanum að krefjast þess að nýja myndin þín verði gefin út í júlí.“

Samkvæmt Todd er það arfaslök hugmynd að gefa út stórmynd á þessum óvissutímum og það sé full snemmt að opna dyr kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum á ný. Frá sjónarhorni viðskipta sé það galið að treysta á hagnað þegar margir þora hreinlega ekki í bíó, hvorki nú né á næstunni.

„Mig dauðlangar að sjá myndina þína, en ekki nógu mikið til að leggja líf mitt í hættu. Ég held að það sé mælikvarði sem flestir í heiminum myndu sætta sig við.“