Skógarkofinn vaknar til lífs á ný

Endurgerð af sígildu hrollvekjunni The Evil Dead frá 1981 er nú í bígerð og tökur eru hafnar. Sam Raimi, leikstjóri upprunalegu útgáfunnar, er framleiðandi myndarinnar ásamt þeim Rob Tapert, upprunalega framleiðanda seríunnar, og sjarmatröllinu Bruce Campbell, sem fór með aðalhlutverkið í seríunni á sínum tíma.

Þetta verður fyrsta kvikmynd leikstjórans Fede Alvarez í fullri lengd, en stór nöfn standa á bak við myndina. Þar má nefna óskarsverðlaunahafan Diablo Cody sem einn af fjórum handritshöfundum myndarinnar ásamt Sam Raimi sjálfum og þeim Fede Alvarez og Rodo Sayagues Mendez.

Leikhópurinn sem hefur verið tilkynntur samanstendur af þeim Jane Levy úr þáttunum Suburgatory og Shameless, Jessica Lucas úr Cloverfield, Shiloh Fernandez Elizabeth Blackmore og Lou Taylor Pucci.

Hvernig lýst lesendum á að fá endurgerð af þessari heitelskuðu hræódýru hrollvekju? Sjálfur er ég lúmskt forvitinn því mér lýst vel á leikhópinn en Diablo Cody vísar ekki á gott að mínu mati, nema hún sé búin að leggja sjálfhverfu ónáttúrulegu samtölin sín til hliðar. Ég hef það lík hugfast að upprunalega verður alltaf til og sjarmi hennar hefur ekkert farið dvínandi síðan hún kom út, þannig ég einfaldlega sé enga ástæðu til að æsa mig yfir þessu… í bili.

Höfum við virkilega not fyrir endurgerð á The Evil Dead þegar The Cabin in the Woods er búin að afbyggja formúlu myndarinnar?