Skipting HP:The Deathly Hallows ákveðin

 Þrátt fyrir að Harry Potter and the Half-Blood Prince komi út í sumar eru menn strax farnir að velta fyrir sér hvernig lokamynd Harry Potter verður. Hún mun bera nafnið Harry Potter and the Deathly Hallows og verður skipt í tvo hluta, Part I og Part II.

Þetta er gert vegna gríðarlegs umfangs bókarinnar og finnst leikstjóra og framleiðendum myndarinnar mikilvægt að taka tillit til þess, auk þess að peningar hafa að sjálfsögðu áhrif. Daniel Radcliffe og David Heyman framleiðandi voru nýverið í viðtali þar sem þeir sögðu aðeins frá því hvernig lokamyndinni verður skipt niður.

,,Við höfum leikið okkur með nokkra staði, en ég held að við séum sáttir með staðinn þar sem myndinni verður skipt. Þetta er staður sem við teljum að sé ótrúlega spennandi og ekki endilega staður sem fólk er að búast við. Við viljum að áhorfendur verði sáttir með lokin en einnig að þá langi til að sjá næsta hluta. Það var handritshöfundur myndarinnar, Steve Kloves, sem stakk upp á þessari leið og tilfinningin var frábær þegar við sáum að þetta gekk upp!“ sagði Heyman í viðtalinu.

,,Endi fyrri hlutarins verður gríðarlega spennandi þar sem áhorfendur sitja fremst í sæti sínu og geta ekki beðið eftir að sjá meira.“ bætti Radcliffe við.

Heyman talaði einnig um að nota svipaða tækni og notuð var í myndinni The Curious Case of Benjamin Button til þess að gera leikarana eldri, en eins og margir vita þá gerist lokabókin 19 árum á eftir meginsögunni.