Í nógu langan tíma núna hefur önnur Sin City myndin verið í framleiðslu, en samkvæmt nýjustu fregnum frá aðstandenum myndarinnar, fer að styttast í tilvist hennar; eða að minnsta kosti að tökur hefjist. Á San Diego Comic-Con í ár sagði einn leikstjóri fyrstu myndarinnar, Robert Rodriguez, að handritið væri nánast fullkomið og að tökur myndu hefjast fyrir árslok. Hins vegar vildi höfundur myndasagnanna og einnig leikstjóri fyrstu myndarinnar, Frank Miller, leiðrétta Rodriguez í dag með því að segja að handritið þyrfti enn smá vinnslu og að tökur myndu hefjast í vor á næsta ári; en þar sem biðin eftir seinni myndinni hefur staðið í yfir sex ár, ætti þetta ekki að vera svo erfið bið.
Eins og forveri sinn mun Sin City 2 einblína á nokkrar sögur úr heiminum sem Miller skapaði, en að þessu sinni verða þær ‘A Dame to Kill For’, smásagan ‘Just Another Saturday Night’ og tvær nýjar sem Miller hefur skrifað sérstaklega fyrir myndina. Staðfest hefur verið að karakterarnir Marv (leikinn af Mickey Rourke) og Nancy Callahan (leikin af Jessicu Alba) snúi aftur, enda eru þau í upprunalegu ‘Dame’ sögunni, en það sem gæti breyst er hver mun taka við hlutverki Marv. Þó að hlutirnir gætu hafa breyst núna, þá sagði Rourke árið 2008 að honum litist ekki lengur eins vel á hlutverkið: „Þetta eru þrír tímar af förðun og ég er með innilokunarkennd.“
Það væri ekki útilokað að taka Marv hreinlega úr ‘Dame’ sögunni, þar sem hann er í raun bakgrunns-karakter í henni, en hins vegar væri það ekki eins auðvelt í tilfelli ‘Just Another Saturday Night’. Hún gerist á sama tíma og sagan ‘That Yellow Bastard’, sem var aðlöguð í fyrstu myndina, og sýnir afdrif Marvs þá nótt. Síðan er líklegt að Clive Owen snúi ekki aftur til að leika Dwight, þar sem karakterinn á að hafa farið í gegnum gríðarlegar andlitsaðgerðir á milli sagna.
Þrátt fyrir hugsanlegar breytingar er spennan fyrir myndinni hjá undirrituðum engu að síður himinhá og vonandi fer útgáfan ekki að dragast lengur.