Shazam! var töfraorðið

Töfraorðið í bíómiðasölunni í Bandaríkjunum, og mögulega hér á Íslandi einnig, nú um helgina, var Shazam!, en það er nýjasta ofurhetjumyndin úr ranni Warner Bros. kvikmyndaframleiðandans. Myndin flaug rakleiðis á topp aðsóknarlistans í Bandaríkjunum núna um helgina með tekjur upp á 53 milljónir bandaríkjadala, en kostnaður við gerð myndarinnar var 80 milljónir dala.

Ofurhetjan og vinur hans fá sér gosdrykk.

Lofsamlegir dómar urðu myndinni gott veganesti inn í helgina, en þeir áttu vafalítið sinn þátt í því að tekjurnar voru umfram væntingar, en menn bjuggust almennt við á milli 40 – 45 milljónum dala í tekjur af sýningum fyrstu dagana.

Þó að tekjurnar á frumsýningarhelginni séu lægri en hefðbundnar ofurhetjumyndir hafa verið að fá, þá var myndin á móti mun ódýrari í framleiðslu, sem þýðir að ekki þurfa eins margir að mæta í bíó svo myndin borgi sig upp. Aðsóknin nú um helgina þýðir því að framleiðendur þurfa ekkert endilega að spenna bogann um of kostnaðarlega séð til að gera vinsæla ofurhetjumynd.

“Shazam!”, sem hefur verið líst sem Big ofurhetjumyndanna, fjallar um Billy Baston, ungling sem breytist í tyggjógúmmítyggjandi ofurhetju þegar hann segir töfraorðið Shazam!.

Af öðrum myndum í bandarísku miðasölunni er það að segja að hrollvekjan Pet Sematary fór líka vel af stað, með tekjur upp á 25 milljónir dala, en kostnaður þeirrar myndar var 21 milljón dala. Hún er því nú þegar komin í plús.

Þriðja nýja myndin í Bandaríkjunum nú um helgina var Best of Enemies, en hún olli vonbrigðum, og náði aðeins að hala inn 4,5 milljónir í tekjur.