Seth MacFarlane hefur tilkynnt að hann bjóði sig ekki aftur fram til að kynna á óskarsverðlaunahátíðum framtíðarinnar en það er vefmiðillinn The Playlist sem greinir frá þessu. Eins og flestum er kunnugt var Seth kynnir á óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fór síðastliðinn sunnudag í Los Angeles en frammistaða hans þykir nokkuð umdeild þar sem mörgum fannst hann fyndinn og skemmtilegur á meðan að öðrum fannst hann hafa farið vel yfir strikið.
The Playlist veltir því þó fyrir sér hver komi til með að kynna á Óskarnum 2014 en höfundur greinarinnar tilgreinir 5 líklega kandídata sem eru Joseph Gordon Levitt, Amy Poehler, Tina Fey, Will Ferrell og Kristin Wiig. Hver svo sem verður fyrir valinu, ef einhver af þessum, þá er ljóst að seint verður skortur af hæfileikaríku og fyndnu fólki í Hollywood sem getur tekið að sér þann heiður að kynna á Óskarsverðlaunahátíðinni.
Hvað varðar Seth MacFarlane að þá er hann að sjálfsögðu ennþá á fullu í að semja og framleiða Family Guy þættina en auk þess mun hann skrifa, leikstýra og leika í kvikmyndinni A Million Ways to Die in the West en ekki er vitað að svo stöddu hvenær sú mynd kemur út. Þá hefur sá orðrómur einnig verið á kreiki að Ted 2 sé væntanleg en kvikmyndin Ted, sem kom út á síðasta ári, fékk góðar viðtökur meðal kvikmyndagesta og því líklegt að Ted 2 muni líta dagsins ljós á næstu árum.

