Það er ekki líkt mér að hoppa hingað beint inn á fréttasvæðið og tjá samstundis skoðanir mínar á einhverju (eða hvað?), en þar sem verslunamannahelgin er við hendi (sem þýðir að ég er í extra góðu skapi) langar mig til að tala aðeins um mynd sem ég sá fyrir stuttu: SCOTT PILGRIM VS. THE WORLD.
Þið hér kannist líklegast flestöll við hana, enda… tja… kvikmyndavefur!
Málið er að mér er ekki leyft að skrifa umfjöllun um hana strax en ég vildi endilega segja nokkur (spoiler-laus) orð um hana þar sem ég hef ekki haldið vatni yfir henni síðan ég steig útaf henni.
Myndin er hreint út sagt GEGGJUÐ!! Hún er algjör grautur af steiktum húmor, snarklikkuðum stíl, litríkum persónum og ADHD-fíling sem myndi gefa þeim Neveldine & Taylor flogakast. Ég naut hennar í botn og get ekki beðið eftir að sjá hana aftur!
Við fengum miklar fyrirspurnir um að forsýna þessa mynd næst og það var alltaf planið að kíkja á hana fyrst (við forsýnum ALDREI myndir án þess að sjá þær fyrst!). Annars heyrði ég að Erlingur – félagi minn sem stýrir Myndum Mánaðarins – hafði séð hana úti á Comic-Con og hann hélt sjálfur ekki vatni yfir henni, sem hæpaði eiginlega mínar væntingar upp. Hann sagði m.a.s. sjálfur í sinni frétt hér: „Þeir sem hafa beðið spenntir eftir henni mega, ef eitthvað er, tjúnna spenninginn aðeins meira upp.“ Ég skal alveg taka undir þessa fullyrðingu.
Annars mun ég líklegast tilkynna gleðifréttir mjög fljótlega (*blikk). Ég vona að þið eigið góða helgi. Vonandi klárum við bíósumarið með stæl. Þarf mikið til að toppa Inception-forsýninguna a.m.k.
B.kv.
Tómas Valgeirsson


