Schwarzenegger byrjar endurkomu á dramatískri ferð til Mexíkó

Loksins, loksins, loksins, geta aðdáendur Arnolds Schwarzeneggers tekið gleði sína á ný, en nú hefur verið tilkynnt í hvaða mynd kappinn muni birtast fyrst í, nú þegar hann er hættur að vera ríkisstjóri, og hefur snúið aftur í kvikmyndirnar. Myndin heitir Cry Macho, og er drama um óheppinn hestatemjara sem er ráðinn til að ræna níu ára gömlum dreng.

Tökur eiga að hefjast í september. Brad Furman, leikstjóri The Lincoln Lawyer, mun leikstýra. Al Ruddy mun framleiða, en hann hefur fengið Óskarsverðlaun fyrir myndirnar The Godfather og Million Dollar Baby.

„Ég sannfæri ykkur um það að þið munuð fá nýjan vinkil á Arnold Schwarzenegger í þessari mynd,“ segir Ruddy. „Arnld hefur alltaf leikið þessi vöðvatröll, en hann er ljúfur og góður í verunni og við viljum kalla þá ljúfmennsku fram á hvíta tjaldið.“

Fjármögnun fyrir verkefnið hefst á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem hefst nú í vikunni.

Samkvæmt frétt Reuters þá vill Arnold fá 12,5 milljónir Bandaríkjadala í laun fyrir verkefnið, plús 25% hlutdeild í heildarmiðasölu. Ruddy og Schwarzenegger munu svo í sameiningu eignast frumgerð myndarinnar, eða filmuna.

Arnold er einnig búinn að semja um að snúa aftur í hlutverki Tortímandans, eins og við höfum greint frá hér á síðunni.

Cry Macho er byggð á samnefndri skáldsögu frá árinu 1975 eftir N. Richard Nash, en hann skrifaði einnig The Rainmaker. Nash, sem lést árið 2000, skrifaði handritið að myndinni, ásamt Ruddy, en hann hefur verið með það á skrifborðinu hjá sér síðan Nash lést. Ruddy er núna 81 árs. Hann segir í frétt Reuters að leikarar eins og Burt Lancaster, Pierce Brosnan og jafnvel Clint Eastwood hafi komið til greina í hlutverkið á mismunandi tímum.
Hann hafi hinsvegar verið ófús að láta stóru stúdíóin koma að framleiðslunni, en beðið frekar færis á að framleiða hana sjálfur.

Schwarzenegger, sem er 63 ára, mun leika Mike, hestatemjara, sem hefur misst konu sína og son. Fyrrum vinnuveitandi hans gerir honum tilboð sem hann getur ekki hafnað; að ræna syni vinnuveitandans fyrir 400 þúsund dali, en sonurinn býr með fyrrum eiginkonu vinnuveitandans í Mexíkó. Þegar Mike finnur strákinn, sem reynist mikilll vandræðagemlingur, þá vill fyrrum kona hans í raun ekki sjá strákinn. En þegar Mike og strákurinn fara aftur til Bandaríkjanna, með lögguna á hælunum, þá þróast með þeim feðgasamband.

Ruddy segir að myndin eigi eftir að kalla tár fram á hvarma fólks – en hvað finnst ykkur – sjáið þið Schwarzenegger fyrir ykkur í hlutverkinu?