Iron Man hetjan Robert Downey Jr. hefur samþykkt að leika aðalhlutverkið í myndinni Cowboys and Aliens, en stefnt er á að gera hana að einni af stórmyndum ársins 2010. Það rosalegasta við þessa frétt er að Dreamworks og Universal hafa fengið til sín handritshöfunda Iron Man (!), þá Hawk Ostby og Mark Fergus.
Hugmyndin að Cowboys and Aliens hefur verið til í áraraðir og hafa m.a. David Hayter (X-Men), Steve Oedekerk (Evan Almighty) og Jeffrey Boam (Indiana Jones and the Last Crusade, skilað inn uppkasti að handriti en það hefur verið litið framhjá þeim öllum, þar sem gæðin voru víst ekki nógu góð. Framleiðendurnir eru ekki af verri endanum, Brian Grazer og enginn annar en Steven Spielberg.
Myndin á að gerast á 19.öldinni og fjallar um kúreka og indíána sem eiga í stríði, en hlé er gert á stríðinu þegar geimverur lenda á jörðinni. Taka þá kúrekarnir og indíánarnir saman og berjast gegn geimverunum, og á Robert Downey víst að leika Zeke Jackson, fyrirliða kúrekanna.
Ekkert hefur verið gefið upp varðandi tökudagsetningar, eða hvort þetta hafi einhver áhrif á útgáfu og tökur á Iron Man 2.

