Bandaríska leikaranum Brandon Routh þótti leitt að geta ekki spreytt sig í Superman-hlutverkinu oftar en gafst tækifæri til. Leikarinn var tiltölulega óþekktur þegar hann var ráðinn í burðarhlutverk stórmyndarinnar Superman Returns frá 2006 í leikstjórn Bryans Singer.
Routh var nýverið í viðtali í þættinum Inside of You hjá leikaranum Michael Rosenbaum og þar er hann spurður út í þau vonbrigði þegar framhaldið af Superman Returns sett á ís. Segir Routh þetta tímabil hafa verið átakanlegt á marga vegu og leitaði hann oft huggunar með því að spila tölvuleikinn World of Warcraft.
Routh segir:
„Þetta fór ekki alveg eins og ég bjóst við, eins og flestir bjuggust við í raun. Það tók mig smátíma að sætta mig við það. Það var engin framhaldsmynd gerð þó svo að myndin hafi fengið jákvæðar viðtökur og halað inn 400 milljónum dala. Það þótti ekki nóg. Þetta fór hægt og rólega að skýrast, næstu tvö-þrjú árin, að ég myndi ekki fá tækifærið til að gera aðra mynd. Ég gerði allt sem ég gat og reyndi allt sem ég gat til að koma því verkefni af stað.“
Þó svo að Brandon Routh hafi ekki fengið Superman framhaldsmyndina sem hann vildi hefur honum engu að síður tekist að klæðast skikkjunni á ný, þrettán árum síðar. Routh gafst tækifærið til að leika Superman á ný í „crossover“-seríunni Crisis on Infinite Earths, við góðar undirtektir aðdáenda.
Singer erfiður í samskiptum
Þá snýr umræðan að leikstjóranum Bryan Singer, sem undanfarin ár hefur verið sakaður af fjölda karlmönnum um kynferðislega áreitni. Á þeim tíma voru meintir þolendur allir undir lögaldri.
Routh segir Singer vera mikinn fagmann í kvikmyndagerð og hafi hann verið afar ástríðufullur gagnvart Superman og tilvonandi framhaldi á sínum tíma, hafi hann þó ekki verið viðkunnanleg nærvera á tökustað og var oft mjög erfitt að vinna með honum.
„[Singer] var ekki góður í samskiptum við alla. Það var ýmislegt í gangi í lífi hans sem hann lét bitna á öðrum. Heppilega bar hann sig vel í kringum mig en ég var vitni af ýmsum óþægilegum uppákomum þarna,“ “ fullyrti Routh og sagðist sýna því fullan skilning þegar hann heyrði frásagnir annarra leikara af hegðun leikstjórans.
Leikkonan Sophie Turner sagði að hún hafi ekki átt í jákvæðum samskiptum við Singer við tökur á myndinni X-Men: Apocalypse. Óskarsverðlaunahafinn Rami Malek, sem vann með Singer að Bohemian Rhapsody, hefur tekið í sama streng og sagt að samstarfið þeirra á milli hafi á tíðum verið afar óánægjulegt. Singer er merktur sem leikstjóri myndarinnar, en framleiðslufyrirtækið 20th Century Fox ákvað að reka hann þegar aðeins tvær vikur voru eftir af tökum myndarinnar.
Ástæða brottvikningar Singers var sögð sú að hann hafi þótt ótrúlega erfiður í samstarfi, auk þess að hafa horfið af tökustað, þó hann hafi síðar neitað því í yfirlýsingu. Í hans stað fékk fyrirtækið breska kvikmyndagerðarmanninn Dexter Fletcher til að klára myndina.
„Bryan var rekinn, sem ég held að enginn hafi búist við á þeim tíma, en ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun.“ sagði Malek í viðtali á kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara á síðasta ári.