RIFF og Airwaves í samstarf

RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefst hinn 23. september næstkomandi, og stendur til 3. október. Í fréttatilkynningu frá hátíðinni segir að RIFF og tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hafi ákveðið að leiða saman hesta sína og efna til samstarfs á kvikmyndahátíðinni nú í ár. „Samstarfið felst í því að heimildarmyndin Where Is The Snow? sem fjallar um tónlistarhátíðina verður heimsfrumsýnd á RIFF nú í haust, auk þess sem einhverjir þeirra listamanna sem koma fram á Airwaves munu einnig koma fram á frumsýningunni,“ segir í tilkynningunni.

Um er að ræða mynd eftir þá Gunnar B. Guðbjörnsson og Bowen Staines sem var tekin á síðustu Iceland Airwaves hátíð, og hefur verið í framleiðslu síðan þá. Í myndinni koma fram 14 íslenskir flytjendur sem lýsa upplifun sinni af hátíðinni, auk þess að leika tónlist sína. Þessir flytjendur eru Retron, Reykjavik!, Mammút,Páll Óskar og Hjaltalín, Bróðir Svartúlfs, Agent Fresco, Dikta, Ourlives, Ólafur Arnalds, Retro Stefson, Dr.Spock, Kimono og Esja.

Að lokinni frumsýningu myndarinnar verður haldið sérstakt Q&A, samkvæmt tilkynningunni frá RIFF.

Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan:

„WHERE’S THE SNOW?!“ Official Trailer! from Gussi – Sleepless In Reykjavik on Vimeo.