RIFF blogg Eysteins #1: Hálfleikur

eysteinnNú eru 6 af 11 dögum RIFF hátíðarinnar búnir og að vanda er maður ekki búinn að sjá jafn margar myndir og maður ætlaði. Ég til dæmis komst ekkert í bíó á föstudaginn en reyndi að bæta það upp um helgina. Hér kemur stutt gagnrýni um þær myndir sem ég er búinn að sjá og smá um upplifunina af hátíðinni í leiðinni, því þetta er ekki eins og að hlaða myndunum niður – hverri sýningu fylgir einhver sérstök stemmning.

# Opnunarhátíðin This is Sanlitun

Það er alltaf gaman að fara í stóra salinn í Háskólabíó, sérstaklega þar sem bíómyndir eru almennt ekki sýndar þar nú til dags. Á undan sýningunni voru nokkrar góðar ræður og svo hófst myndin. This is Sanlitun, eða Svona er Sanlitun, er mjög dæmigerð Róbert I. Douglas mynd. Manni líður eins og hún hafi kostað mjög lítið. Aukaleikararnir voru oft mjög slæmir og virtust einfaldlega hafa verið dregnir inn af götunni til að leika í myndinni. Persóna Franks er alveg yfirdrifið ýkt en maður gleymir því fljótt þegar Momo kemur til sögunnar, sem er ennþá ýktari. Yfirleitt finnst mér það óþægilegt, en í þessu tilfelli var það orðið svo mikið að það var orðið fyndið. Maður kemst ekki hjá því að líkja myndinni við Íslenska drauminn. Gary kemur til Peking og reynir að selja vöru sem tekst ekki, en svo nær hann allt í einu að selja vöruna og hann dettur í efnahagshyggjuna. En svo hrynur það allt aftur í lokin. Það voru nokkur fyndin atriði, en mest öllu af myndinni er einfaldlega hægt að lýsa sem mjög miklum kjánahrolli.

# Búðin

Þriðji dagurinn var runninn upp og ég var bara búinn að sjá eina mynd – best að spýta í lófana. Ég ákvað að fara á allar íslensku myndirnar ef ég hefði tækifæri til. Búðin virtist ekki mjög áhugaverð, en ég skellti mér samt. Það var Q&A (spurt og svarað) eftir myndina, en áður en hún byrjaði kynnti leikstjórinn sig og varaði við að myndin væri ansi hæg og róleg, eins og aðalpersónan. Ég fann ekki mikið fyrir því, kannski bara orðinn vanur því. En myndin er sem sagt um Bjarna verslunareiganda á Sauðárkróki. Ein af síðustu verslununum á horninu, eins og þær voru kallaðar. Í búðinni er hægt að finna hvað sem er. En mér fannst eins og myndin hefði getað verið stutt innslag í Landanum eða þess háttar. Þótt mér hafi ekki leiðst þá hugsaði ég samt eftirá að þetta hafi kannski ekki beint verið merkilegt viðfangsefni. Þetta er skemmtileg heimild, en ekki fyrir alla. Eftir myndina kom bæði leikstjórinn og Bjarni á svið og spjallaði við áhorfendur. Bjarni var svosem stuttur með svör og mér fannst leikstjórinn eiginlega vera með ranghugmyndir um að myndin sé um hvernig búðir voru í gamladaga, en mér fannst myndin miklu meira vera um persónu Bjarna.

Amazon

# A Fierce Green Fire

Ég ætlaði að reyna að halda mig frá Norræna húsinu, því mér finnast sætin þar svo óþægileg, en þegar ég áttaði mig á að þessi mynd er eingöngu sýnd þar þá lét ég mig hafa það. Mjög áhugaverð mynd um umhverfisverndarhreyfinguna. Henni var skipt upp í mjög afmarkaða og skýra kafla sem hjálpaði manni að halda þræðinum. Það sem mér fannst hvað mest upplýsandi var hversu hrottalega var farið með efnaúrgang á níunda áratuginum. Eftir að hafa séð fullt af umhverfisverndarmyndum fannst mér mjög hressandi að sjá mynd sem var ekki að einblína á eitthvað brýnt ástand sem blasir við heldur frekar að líta til baka og sjá hvað hefur áunnist.

# Valentine Road

Á sunnudeginum hóf ég daginn með því að sjá Valentine Road. Ég var búinn að kynna mér myndina en var samt búinn að gleyma hvort þetta var mynd um morð eða sjálfsmorð. Ég kom inn fimm mínútum of seint og settist fremst því það var svo mikið myrkur að ég sá engin önnur laus sæti, sem ég sá soldið eftir því kuldinn af sviðinu blés á mig allan tímann. En þetta var sem sagt heimildarmynd um 16 ára strák sem var myrtur af jafnaldra sínum. Mér fannst stundum ruglingslegt í viðtölunum að ég vissi ekki um hvorn strákinn verið var að tala um. Þetta var mjög áhugaverð saga um fordóma, skólakerfið, réttarkerfið og þröngsýni. En ef hún hefði verið klippt aðeins betur held ég að það hefði skilað sér miklu betur.

# Íslenskar stuttmyndir, þriðji skammtur

Þessi hluti er alltaf eitt af uppáhaldinu mínu á RIFF. Hér sá ég sex stuttmyndir sem oft er erfitt að komast yfir seinna. Eylíen var fyrsta myndin í þessum skammti. Ég skildi ekki alveg söguþráðinn, en eitthvað um það að pabbi ungrar stelpu er að skilja og þarf að flýja lögregluna. Hann býr til leik úr aðstæðunum fyrir dóttur sína og notar söguþráð uppáhalds myndarinnar hennar, Alien. Ágætis mynd sem skilur eftir fleiri spurningar en svör. Næst kom Ibiza, sem er mjög fyndin og skemmtileg mynd um hóp af fólki sem ætlar að ræna banka. Allar persónurnar eru mjög ólíkar og hafa mjög sérstakan og skemmtilegan karakter. Helsti veiki hlekkurinn fannst mér vera höfuð gengisins, sem fékk leyninafnið Splinter. En maður tók aðallega eftir því af því að allar aðrar persónur voru svo vel heppnaðar. Eftir henni kom Cold Turkey, ógeðslega myndin eins og einhver sagði. Adam er háður mannakjöti og er að reyna að hætta. Hann fer í svipað ástand og fólk sem er að reyna að hætta á fíkniefnum. Virkilega flott gervi og góð mynd í sínum flokki. Mónika var næsta myndin. Svarthvít mynd sem er mjög stíliseruð. Kona sem er í mikilli rútínu reynir að finna hamingjuna í lífinu sínu. Eiginlega sú mynd sem ég man hvað minnst eftir. Það var ein stutt heimildamynd í þessum skammti, Nonni, um íslenska málarann sem kom út úr skápnum 1975. Mjög áhugavert að sjá hvernig tímarnir hafa breyst. Í lokin var myndin sem ég beið hvað mest eftir, Víkingar. Skemmtileg blanda af fortíð og nútíð. Eftir sýninguna var Q&A (spurt og svarað) með leikstjórunum. Því miður voru bara þrír leikstjórar viðstaddir og ekki sá sem mig langaði til að spurja spurningar.

# Aska

Síðasta mynd dagsins var Aska, heimildarmyndin um eldgosið í Eyjafjallajökli. Mér fannst allt kynningarefnið myndarinnar benda til þess að hún fjallaði um gosið sjálft, en hún var miklu meira um fólkið í sveitinni eftir að gosið var búið. Fylgst var með þremur fjölskyldum sem hver brást við afleiðingunum á mismunandi hátt. Það var mjög áhugavert að sjá það, og ég skil ákvörðunina um að segja þá hlið málsins, en ég hefði viljað sjá örlítið meira um gosið, þótt ekki væri nema ein mínúta þar sem minnst var á tafirnar á umferðinni, hvernig askan færðist eftir vindáttinni um mismunandi bæi á Íslandi, muninn á tegundum þessa tveggja gosa í Eyjafjallajökli og þessháttar. En aðal gallinn fannst mér vera að sagan var ekki sögð í nægilegri tímaröð. Það var verið að flakka fram og til baka. Þótt ég hljómi soldið neikvæður þá fær myndin samt alls ekki falleinkun, en þegar maður þekkir viðfangsefnið svona vel, eins og flestir Íslendingar gera, þá er auðvelt að gagnrýna myndina. Eftir myndina var Q&A með leikstjóranum, það var mjög gaman að heyra frá honum því hann staðfesti að það var alltaf hugmyndin hans að einblína á að segja sögu þeirra sem bjuggu á svæðinu. Þar kom líka fram að hugmyndin að myndinni kom á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg þegar nokkrir kvikmyndagerðamenn voru að ræða um hvað þeir ættu að sýna á næsta ári. Gaman að svona hátíðir virki sköpunargleðina.

breathing

# I Am Breathing

Mánudagurinn byrjaði snemma, með I Am Breathing kl. 2 í Norræna húsinu. Ennþá hef ég ekki skilið afhverju verið er að sýna í Norræna húsinu en engar sýningar eru í Bíó Paradís! En ég varð einfaldlega að sjá þessa mynd. Ungur maður er greindur með ólæknandi sjúkdóm og hefur aðeins nokkra mánuði eftir ólifaða. Smátt og smátt verður hann lamaður í fótum og handleggjum og á endanum hættir hann að geta talað og andað. Virkilega merkilegt hversu hugrakkur hann og kona hans eru. Ég verð að viðurkenna að ég grét eins og smábarn í lokin. Þau eru bæði virkilega góð fyrirmynd og mikil hvatning fyrir mann.

# Íslenskar stuttmyndir, annar skammtur
Carino er mjög furðuleg mynd. Mynd sem virðist ganga í hringi. Maður verður fyrir umferðarslysi og er bjargað af einhverjum furðulegum manni sem heldur honum í gíslingu. Hann nær að flýja en verður aftur fyrir umferðarslysi og lendir aftur hjá sama manninum. Mynd sem skildi ekki beint mikið eftir sig. Næsta mynd er Gabríella. Ung stúlka verður fyrir nauðgun og er að byggja upp sjálfstraust á ný. Mjög vel gerð mynd sem fær mann til að hugsa. Svo kom Megaphone, eða Gjallarhorn. Hera fer niður í bæ að skemmta sér og hittir kunningja sinn. Þau enda með því að eyða nóttinni saman. Um morguninn kemur upp vandræðalegur miskilningur. Virkilega sannfærandi mynd um samskipti kynjanna, að viðurkenna mistök og að fyrirgefa. Þar á eftir kom Mósaík. Aftur mynd um samskipti kynjanna. Ung stúlka sem er að reyna að flýja fortíðina byrjar að kynnast strák. En það skemmtilegasta við þessa mynd er að enginn talar í myndinni, allt er leikið með látbragði, ekki einu sinni opnað munninn. Þess í stað er sögumaður sem segir frá því hvað hver er að segja. Skemmtileg tilraun og heppnaðist mjög vel. Næstsíðasta myndin hét Sketch, án efa sú mynd sem kom hvað mest að óvart. Ungur strákur á augljóslega í miklum geðrænum erfiðleikum. Hann kæfir hávaða borgarinnar með því að spila klassíska tónlist í iPodinum sínum. Hann er nær mállaus og stelur pening frá ókunnugum. Samt veit maður að hann er mjög góður strákur. Einn daginn verður hann vitni að morði og á sinn hátt byrjar hann að hjálpa lögreglunni við rannsóknina. Alveg stórkostleg mynd um hvernig ólíklegasta fólk getur gert stórkostlega hluti. Eini gallinn fannst mér að hún var aðeins of væmin í lokin. Síðasta myndin hét Strýta. Mynd um tvo stráka sem finna byssu í yfirgefnu húsi. Gallinn við þessa mynd er að það er búið að segja þessa sögu margoft og fannst mér þessi ekki bæta neinu nýju við. Fyrir utan það var hún ágætlega gerð.

b1e851fe6cba3d29fddf09d04baee471

# Celestial Wives of the Meadow Mari

Nú var ég farinn að kvefast ansi mikið. Tengi það við það að hafa verið í ísköldum sal Tjarnarbíós daginn áður. En ég píndi mig samt áfram og fór á hálf tólf sýningu á Celestial Wives of the Meadow Mari eða Himneskar eiginkonur Mari-þjóðarinnar á engjunum. Alveg stórfurðuleg mynd. Þegar ég sá stikluna vissi ég að hún væri furðuleg, en ég bjóst ekki alveg við þessari steypu. Minnti mig á það þegar ég sá japönsku myndirnar Big Man Japan og Symbol á RIFF fyrir nokkrum árum. Alveg rosalega súrar og maður vissi enganveginn hvað maður var að horfa á. Þessi mynd er rússnesk og er samansafn af stuttum sögum af konum úr sveitinni. Þær eru allar um kynlíf, ást, nekt eða fegurð en alltaf um galdrabrögð. Mikið hefði ég viljað sýna kennaranum mínum í kvikmyndaskólanum þessa þegar hann var að troða því í hausinn á mér að allar myndir þurfi að hafa aðalpersónu. Ekki ef maður ætlar að gera listræna mynd sem er miklu meira um upplifunina heldur en söguna. Mjög flott miðnæturmynd og einmitt ástæða þess að ég hlakka alltaf til RIFF.

Kem svo með annað blogg þegar RIFF er búið. Minni á að hægt er að sjá sýningartíma og stiklur úr myndunum hér. Einnig setti ég saman lista 18 mynda sem virðast vera áhugaverðar á RIFF 2013.

Eysteinn Guðni Guðnason.