„Woody Harrelson er spilltasta lögga sem þú hefur séð á skjánum“, lofar fyrsti skjátextinn í nýrri stiklu fyrir myndina Rampart. Það gæti bara alveg passað, en ég er samt ekki sérfræðingur í spilltum sjónvarpslöggum. Þetta er mynd sem var ekki á radarnum hjá mér, en maður mun örugglega reyna að sjá ef að tækifæri gefst til.
Leikstjóri er Oren Moverman, sem síðast gerði The Messenger sem skartaði Harrelson og Ben Foster í aðalhlutverkum. Þeir Harrelson og Foster snúa aftur í þessari mynd, ásamt einvalaliði leikara, Ned Beatty, Sigourney Weaver, Anne Heche, Robin Wright, Ice Cube, Steve Buscemi og fleirum. Myndin byggir á handriti eftir hinn magnaða James Ellroy (Dark Blue, L.A. Confidential), og fær efnivið sinn frá raunverulegum atburðum, Rampart lögregluhneykslinu. Myndin hefur verið sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum og hlotið ágætis viðbrögð. Hún verður sýnd í nokkrum bíóum í desember til að tryggja að hún verði gjaldgeng á óskarsverðlaununum, svo að framleiðendurnir hafa greinilega trú á henni. Við verðum svo bara að bíða og sjá hvenær við á Íslandi fáum að sjá myndina, það gæti farið eftir því hversu vel henni gengur úti. Hér er stiklan: