Sögusagnir hafa verið uppi um að leikarinn og leikstjórin Sylvester Stallone sé að vinna að nýrri Rambo mynd, þeirri fimmtu í röðinni, en eins og margir muna eflaust kom hann með skothelda Rambo 4 mynd eftir langt hlé í séríunni.
Sagt er að upprunalega hafi Rambo 5 átt að vera saga um mannrán, sem síðan átti að breytast í einhversskonar vísindaskáldsögu með Predator ívafi, þar sem Rambo átti að vera að eltast við einhverjar furðuskepnur sem áttu að hafa orðið til við misheppnaðar tilraunir stjórnvalda.
Svo virðist að sem betur fer hafi þessum ósköpum verið afstýrt, því Stallone, sem nú er að kynna nýjustu mynd sína Expandables, sem frumsýnd verður í lok ágúst og verður forsýnd hjá okkur hjá kvikmyndir.is sama dag og hún verður frumsýnd í Bandaríkjunum, var spurður út í þetta á einum blaðamannafundinum. Spurningin var á þá leið hvort að Rambo 5 væri á leiðinni, eða jafnvel Rambo 0 – þ.e.a.s. mynd sem gerist á undan fyrstu myndinni.
„Í fjórðu myndinni kláraði persónan allan hringinn, myndin endaði þegar hann fór heim. Ef að ætti að gera framhald af þeirri mynd gæti það verið mistúlkað,“ segir Stallone um Rambo 5 hugmyndir.
Um Rambo 0 hugmyndir segir Stallone: „Ég held að sú hugmynd sé vel þess virði að skoða vel. Það er alltaf áhugavert að kafa ofaní afhverju fólk varð eins og það varð. Sorgin, álagið og áföllinn sem hermenn urðu fyrir í Víetnam stríðinu gætu einmitt verið áskorun sem ungur leikari gæti hugsað sér að túlka, og það væri á vissan hátt kaldhæðnislegt að Rambo leikstýrði ungum Rambo, eftir að hafa leikið persónuna í meira en tuttugu ár…“ sagði Stallone.
Stallone er svo sem ekkert að staðfesta neitt í þessum viðtölum, en það má vissulega taka undir að það væri gaman að sjá forsöguna og hvernig stríðsmaskínan Rambo varð til.

