Potter göldróttur í miðasölunni

Nýja Harry Potter myndin Harry Potter and the Deathly Hallows: Part One, sem kvikmyndir.is forsýndi sl. fimmtudag í SAM bíóunum Egilshöll, og frumsýnd var á föstudaginn, hefur slegið í gegn miðasölunni um helgina. Tekjur af myndinni um helgina nema á heimsvísu um 330 milljónum Bandaríkjadala á einni stærstu frumsýningarhelgi allra tíma, að mati helstu sérfræðinga á þessu sviði.
Myndin þénaði 125,1 milljón dala í Bandaríkjunum yfir helgina og í Bretlandi sló hún metið yfir stærstu frumsýningu þar í landi, með 28 milljónir dala í tekjur, að sögn Warner Brothers kvikmyndafyrirtækisins.
Í Ástralíu námu tekjur af myndinni 15 milljónum dala og 12 milljónir í Rússlandi.
„Þetta er svo sannarlega algjört einsdæmi, og þetta er bara byrjunin,“ sagði Dan Fellman, yfirmaður dreifingarmála Warner Brothers í Bandaríkjunum.
Veronika Kwan-Rubinek, yfirmaður alþjóðlegrar dreifingar, sagði að þau væru yfir sig hrifin af því hvað myndinni væri vel tekið á alþjóðamarkaði.
„Þetta er vitnisburður um hinn ótrúlega sagnaheim J.K. Rowlings, hæfileika kvikmyndagerðarfólksins, leikaranna og allra sem hafa komið nálægt framleiðslunni; og einnig er mikil og góð vinna markaðs- og dreifingarfólks um allan heim að skila sér.“
Aðrar myndir á topp tíu bíólistanum í Bandaríkjunum um helgina máttu sín lítils gagnvart göldrum Potters.
Teiknimyndin Megamind varð í öðru sæti með 16,2 milljónir dala í tekjur og hasarmyndin Unstoppable með Denzel Washington og Chris Pinewith varð í þriðja sæti með 13,1 milljón dala í tekjur. Due Date kom þar á eftir með 9,1 milljón dala.
The Next Three Days, sem var eina myndin fyrir utan Potter sem var frumsýnd þessa helgi, lenti í fimmta sæti með 6,75 milljón dali í tekjur.
Sjötta sætið tilheyrir Morning Glory með þeim Harrison Ford, Diane Keaton og Rachel McAdams, þar á eftir kom Skyline og þá Red. Í níunda og tíunda sæti voru svo For Colored Girls og Fair Game.