Pitt slær persónulegt met

 

brad pitt world war zNú um helgina fóru tekjur af sýningum heimsenda-uppvakningatryllisins World War Z, með Brad Pitt í aðalhlutverkinu, upp í 502,6 milljónir Bandaríkjadala. Myndin er þar með farin fram úr annarri vinsælli Brad Pitt mynd, hinni heimssögulegu Troy. Þetta þýðir að World War Z er orðin tekjuhæsta Brad Pitt mynd frá upphafi, en Troy þénaði 497,3 milljónir dala á alheimsvísu.

World War Z hefur þénað 197,4 milljónir dala í Bandaríkjunum, sem er einnig það mesta sem Brad Pitt mynd hefur náð þar í landi, og utan Bandaríkjanna hefur myndin þénað 305,2 milljónir dala.

Í myndinni leikur Pitt fyrrum starfsmann Sameinuðu þjóðanna sem sendur er út af örkinni til að reyna að ráða niðurlögum alheims-uppvakningafaraldurs sem ógnar öllu lífi á Jörðinni.

Myndinni var leikstýrt af Marc Forster, og er gerð eftir skáldsögu Max Brooks. Pitt lagði hjarta og sál í verkefnið, hann var á meðal framleiðenda og lagði sérstaklega mikið á sig við að kynna myndina sem mest og best um allan heim.