Pitt fær ekki nóg af uppvakningum

Velgengni World War Z, uppvakningatryllisins með Brad Pitt í aðalhlutverkinu, nú um helgina hefur orðið til þess að framleiðendur myndarinnar hafa tekið fyrri fyrirætlanir um að gera framhaldsmyndir niður af hillunni, en það má segja að það sé að verða regla að ef mynd gengur vel í bíó þá sé gerð af henni framhaldsmynd og svo önnur og önnur, eða svo lengi sem menn mæta í bíó til að sjá þessar myndir.

Stjórnandi hjá Paramount kvikmyndaverinu, Rob Moore, staðfestir þetta í samtali við The Hollywood Reporter.

brad pitt

Myndin þénaði 66 milljónir Bandaríkjadala nú um helgina í Bandaríkjunum, sem þýðir að þessi frumsýningarhelgi myndarinnar er sú besta fyrir frumgerð af stórri hasarmynd, síðan Avatar var frumsýnd. Auk milljónanna 66 í Bandaríkjunum þá hefur myndin þénað 45,8 milljónir dala utan Bandaríkjanna.

Upphaflega sáu framleiðendur World War Z fyrir sér sem þríleik, en þær fyrirætlanir voru lagðar á hilluna þegar vandamál fóru að koma upp við framleiðslu myndarinnar, meðal annars þurfti að endurgera að stórum hluta síðasta hluta myndarinnar.

Upphaflega átti myndin að vera frumsýnd í desember á síðasta ári, en frumsýningu var síðan frestað fram í júní, og margir bjuggust við að myndin myndi kolfalla.

En það er öðru nær, myndin byrjar vel, bæði hvað aðsókn og gagnrýni varðar.

Myndin kostaði 190 milljónir dala í framleiðslu, og er því strax á góðri leið með að ná inn fyrir þeim kostnaði.

Það hefur hjálpað myndinni að Brad Pitt hefur gert víðreist til að kynna myndina og til að vera viðstaddur frumsýningar.  Pitt er sjálfur á meðal framleiðenda myndarinnar, en þetta er aðsóknarmesta mynd Brad Pitt á frumsýningarhelgi frá upphafi í dollurum talið.

Myndin fjallar um starfsmann Sameinuðu þjóðanna sem þarf að fara frá fjölskyldu sinni í miðjum uppvakningafaraldri sem herjar á jörðina, til að hjálpa til við að finna lækningu við pestinni.

Pitt gaf í skyn þegar hann var viðstaddur frumsýningu myndarinnar í Moskvu að framhald yrði gert, og sagði m.a. að það væri nóg af efni til að gera framhaldsmyndir í skáldsögu Max Brooks sem myndin er gerð eftir.