Pegg óþekkjanlegur eftir sex mánuði í ræktinni

Leikarar láta sig margir hafa það að ganga í gegnum verulega útlitsbreytingu fyrir kvikmyndahlutverk, með talverðri fyrirhöfn. Skemmst er að minnast þar Christian Bale og Viggo Mortensen, sem báðir bættu á sig slatta af aukakílóum fyrir Óskarstilnefnd hlutverk sín í Vice og Green Book, en einnig má minnast á Matthew McConaughey sem horaði sig svakalega niður fyrir leik sinn í hlutverki eyðnismitaðs manns í Dallas Buyers Club, en fyrir það hlutverk fékk hann Óskarsverðlaun á sínum tíma.

Nú er kominn nýr leikari á þennan lista, einhver sem maður bjóst kannski ekki alveg við, en það er enski Mission Impossible og Shaun of the Dead leikarinn Simon Pegg.

Pegg kom aðdáendum sínum á óvart nú um helgina þegar hann sýndi afrakstur megrunar og um leið vöðvasöfnunar, vegna hlutverks í kvikmyndinni Inheritence.

Það var einkaþjálfari hans Nick Lower sem upprunalega deildi ljósmynd af Pegg á samfélagsmiðlum á föstudaginn, og sagði þar: „Simon Pegg eftir sex mánaða breytingu vegna Inheritance kvikmyndarinnar. Markmiðið var að verða mjög, MJÖG grannur. Hlutverkið krafðist ákveðinnar líkamslögunar og útlits.“

Pegg, 49 ára, endurtísti ljósmyndinni og bætti við ummælum, og sagði að það hefði tekið á að ná þessu útliti, og valdið mislyndi á köflum.

Inheritence fjallar um það þegar ættfaðir auðugrar og valdamikillar fjölskyldu lætur lífið, og eftirlætur eiginkonu og dóttur óvæntan leynilegan arf, sem getur ógnað og eyðilagt líf þeirra.

Terminal leikstjórinn Vaughn Stein leikstýrir, og Lily Collins leikur aðal kvenhlutverkið, eftir að Kate Mara gaf hlutverkið frá sér vegna árekstra við önnur verkefni.

Hér fyrir neðan má sjá nýtt útlit Pegg: