Paltrow vissi ekkert um Iron Man

Leikkonan Gwyneth Paltrow, sem leikur Pepper Potts aðstoðarkonu Tony Stark í Iron Man 3, segir að hún hafi átt erfitt með að átta sig á söguþræði myndarinnar þegar hún las handritið. Hún segist hafa ruglast í ríminu þegar hún las í gegnum hasarsenurnar, en létti þegar hún sá að þær voru mun skiljanlegri þegar þær voru komnar upp á hvíta tjaldið.

Iron Man 3 verður frumsýnd í London á morgun, og segir Paltrow, sem er í London vegna frumsýningarinnar, að börnin hennar og vinir þeirra hafi fengið einkasýningu á myndinni nú í vikunni, og fundist hún frábær.

Hún segir að hún hafi raun verið „undrandi“ að uppgötva að hún naut þess mjög mikið sjálf að horfa á myndina.

Hún segist hafa sest niður með eiginmanni sínum, Chris Martin söngvara popphljómsveitarinnar Coldplay, og börnum þeirra tveimur, Apple átta ára og Moses sjö ára, og vinum þeirra yfir myndinni.

Paltrow, sem er 40 ára gömul, segir í samtali við breska dagblaðið The Independent: „Við sáum myndina saman í gærkvöldi með öllum vinum barnanna og öllum fannst hún frábær. Þar á meðal mér sjálfri – Ég var mjög undrandi.

„Mér finnst erfitt að fylgja söguþræðinum á pappírnum – hver er skotinn niður hvar, hver er vondur, hver er góður – þetta verður allt mjög ruglandi.

„Framvindan í myndinni er svo góð, og það var mjög ánægjulegt að horfa á hana. Ég er mjög heilluð af því sem Shane ( Black, leikstjórinn ) hefur gert og mér fannst hún mjög góð – og það sama má segja um fjölskyldu mína.“

Paltrow leikur nú Potts í fjórða skiptið, en hún lék hana í fyrri tveimur Iron Man myndunum, sem og í stórsmellinum Avengers á síðasta ári, ásamt Robert Downey Jr í hlutverki Tony Stark, betur þekktur sem Iron Man.

Paltrow bætir því við í viðtalinu að hún hafi aldrei búist við því að eiga eftir að leika í mynd sem væri gerð eftir teiknimyndasögu, og hafði aldrei heyrt um Iron Man þar til hún var beðin um að leika í fyrstu myndinni, af leikstjóranum Jon Favreau.

„Ég ólst ekki upp við að lesa teiknimyndasögur. Þegar þetta var þá hafði ég verið í fríi í nokkur ár og var heima með börnunum, og það var ekkert handrit tilbúið þannig að ég samþykkti þetta blindandi, en Robert og Jon sannfærðu mig um að gera þetta.

„Ég hafði aldrei fyrirfram séð mig fyrir mér í mynd sem gerð væri eftir ofurhetju teiknimyndasögu en núna er ég mjög glöð yfir því að þetta hefur verið aðalvinnan mín síðastliðin sex ár.“

Iron Man verður frumsýnd á Íslandi 24. apríl nk.