Paltrow vill að Pepper Potts fái sína eigin mynd

Gwyneth Paltrow vill að Pepper Potts, forstjóri Stark Industries og unnusta Tony Stark, öðru nafni Iron Man í Iron man 3, fái sína eigin ofurhetjumynd.

Eins og þeir sem séð hafa Iron Man 3 vita, þá sýnir Pepper fína ofurhetjutilburði í myndinni, þó best sé að segja sem minnst fyrir þá sem eiga eftir að sjá myndina.

„Væri það ekki gaman,“ segir Paltrow. „Það yrði frábært ef Pepper fengi sína eigin mynd. Í teiknimyndasögunum, þá verður hún Rescue og fær sinn eigin búning. Kannski við ýtum aðeins á Marvel að gera þetta.“

„Síðan ég varð 40 ára ( í september sl. ) þá líður mér eins og ég sé yngri en nokkurn tímann fyrr, og mun orkumeiri,“ sagði Paltrow sem var valin fallegasta kona heims á dögunum af People tímaritinu. „Ég er tilbúin. Ég er tilbúin í meira fjör núna,“ bætti Paltrow við í samtali við E-online fréttaveituna. 

Paltrow hefur nú leikið Pepper fjórum sinnum; í þremur Iron Man myndum og í stórsmellinum The Avengers á síðasta ári. „Þegar þú ert alltaf að koma að því sama aftur og aftur, þá fer þér að finnast þú þekkja hana mjög vel,“ segir Paltrow. „Ég elska hana. Hún er svo yndisleg og sterk. Hún er frábær kona.“

Hvernig líst þér á  – ætti Marvel að gera mynd um Pepper Potts?