Októberblað Mynda mánaðarins komið út

Í dag kemur októberblað Mynda mánaðarins út á allar leigur, í bíó og á fleiri staði. Blaðið er heilar 96 síður að þessu sinni, en aðeins afmælisblaðið í síðasta mánuði var stærra.

Forsíðumynd Bíóblaðsins er The Social Network og í tengslum við þá mynd erum við með opnuviðtal við aðalleikara myndarinnar, hinn efnilega Jesse Eisenberg. Einnig er að finna viðtöl við Ryan Murphy, leikstjóra Eat Pray Love, og Matt Dillon, sem leikur eitt aðalhlutverkanna í Takers.

Það er þó ekki allt, því einnig er að finna skemmtilegt Kvikmyndaspil nánast í miðju blaðsins, þar sem einni opnu er breytt í leikjaborð og hægt er að láta teninga ráða för í gegnum kvikmyndasöguna. Ýmsir atburðir úr kvikmyndasögunni hjálpa eða hindra spilarana á för sinni að lokareitnum. Teningar fylgja reyndar ekki með blaðinu, en það á að vera hægt að finna þá á hverju heimili.

Svo er að sjálfsögðu að finna kynningar fyrir alla útgáfu mánaðarins í bíó og á DVD, en á meðan stærstu bíó-myndirnar eru Brim, The Social Network, Órói, The Town, Let Me In og Machete eru DVD-myndir á borð við Sex and the City 2, Repo Men, Mömmu Gógó, Predators, Get Him to the Greek og Nowhere Boy á dagskrá í október. Þar er einnig hægt að sjá hvaða myndir koma einnig út á Blu-ray, með því að merkja þær með litlu Blu-ray lógói í aldursmerkinga-rekkann.

Blaðið kemur á vefinn seinna í dag, þar sem hægt verður að fletta í gegnum það á tölvuskjánum.

Eins og áður hvetjum við lesendur til að koma með góðar hugmyndir að hlutum til að hafa í blaðinu, með því að senda póst á ritstjórann, erlingur@kvikmyndir.is.

-Erlingur Grétar