Ofurhetjumyndin Avengers: Age of Ultron trónir á toppi vinsældarlista helgarinnar yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Alls sáu rúmlega 10.000 landsmenn myndina yfir frumsýningarhelgina.
Tony Stark reynir að endurvekja gamalt friðarprógram en leysir um leið úr læðingi vélskrímslið Ultron sem á sér bara eitt markmið og einn tilgang: Að útrýma mannkyninu í eitt skipti fyrir öll.
Leikstjóri er sem fyrr Joss Whedon og til baka snúa allir leikarar fyrri myndarinnar í hlutverkum sínum sem Avengers-ofurhetjurnar auk þess sem nokkrir bætast við, þar á meðal Aaron Taylor-Johnson sem hinn ofurhraði Quicksilver og Elizabeth Olsen sem Scarlet Witch. Með hlutverk Ultrons fer svo James Spader og segir orðrómurinn að honum hafi tekist alveg einstaklega vel upp við að leika hið illa vélskrímsli.
Íslenska myndin Fúsi situr svo í öðru sæti listans. Dagur Kári leikstýrir og skrifar handritið að Fúsa, sem er framleidd af þeim Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen fyrir framleiðslufyrirtækið Sögn. Með aðalhlutverk fara Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir.
Í þriðja sæti er myndin gamanmyndin Paul Blart: Mall Cop 2. Kevin James er að sjálfsögðu mættur aftur til leiks í aðalhlutverkinu á Segway tvíhjólinu sínu sem öryggisvörðurinn í Kringlunni, sem fer nú á ráðstefnu öryggisvarða í Las Vegas, en þar gera öryggisverðir á spilavítunum stólpagrín að þeim, enda er öryggið í spilavítunum það mesta og besta í heimi. Paul Blart og kollegar hans láta verkin tala þegar glæpamenn ráðast á hótelið sem þeir gista á. Það gengur þó ekki allt að óskum, frekar en fyrri daginn, og meðal annars kýlir Paul Blart gamla konu í magann, þegar hann heldur að þar sé einn glæpamannanna á ferðinni.