Hobbitinn á toppnum

plakat-hobbitStórmyndin The Hobbit: The Battle of the Five Armies með Martin Freeman, Ian McKellen og Richard Armitage í aðalhlutverkum var frumsýnd rétt fyrir helgi og fór rakleiðis á topp listans yfir aðsóknarmestu kvikmyndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Alls sáu rúmlega 20.000 manss myndina hér á landi yfir helgina.

Myndin er sú síðasta um Bilbó Bagga (Freeman), Þorinn Eikinskjalda (Armitage) og dvergana þrettán. Föruneytið hefur endurheimt heimkynni dverganna frá drekanum Smeygni (Cumberbatch), en hafa óafvitandi leyst úr læðingi eina mestu ógn Miðgarðs. Í bræði sinni lætur hann rigna eldi yfir varnarlausa íbúa Vatnabæjar. Á sama tíma verður Þorinn heltekinn af fjársjóðnum sínum og fórnar vináttunni við Bilbó til að tryggja öryggi hans.

Bilbó reynir í örvæntingu að fá hann aftur yfir á sitt band, en neyðist að lokum til þess að taka afdrifaríka ákvörðun. Ekki bætir úr skák að hinn mikli óvinur, Sauron, hefur sent hersveitir af orkum til þess að ráðast á Fjallið Eina úr launsátri. Nú verða kynþættir dverga, álfa og manna því að ákveða hvort að þeir vilji sameinast eða tortímast. Bilbó berst fyrir lífi sínu í hinni mikilfenglegu Fimmherjaorrustu á meðan framtíð Miðgarðs hangir á bláþræði.

Í öðru sæti listans er teiknimyndin Big Hero 6. Myndin gerist í framtíðarborginni San Fransokyo, sem er samblanda af San Fransisco og Tokyo. Undrabarnið Hiro Hamada hefur smíðað vélmennið Baymax og saman ganga þeir til liðs við ofurhetjur. Myndin er gerð af Chris Williams og Don Hall, en þeir eru báðir vanir teiknimyndaleikstjórar. Sá fyrrnefndi leikstýrði hinni vinsælu teiknimynd Bolt, frá árinu 2008, en Hall hefur áður leikstýrt teiknimyndum á borð við Winnie The Pooh.

Gamanmyndin Horrible Bosses 2 kemur fast á eftir í þriðja sæti listans. Í myndinni ákveða þeir Nick, Dale og Kurt (Jason Bateman, Charlie Day og Jason Sudeikis) að stofna sitt eigið fyrirtæki í kringum sína eigin uppfinningu. Þeir komast síðan í kynni við heldur vafasaman viðskiptamann sem pantar hjá þeim 100 þúsund stykki af uppfinningunni en hættir svo við þegar búið er að framleiða alla pöntunina. Þar með blasir gjaldþrot og jafnvel ærumissir við félögunum þremur og til að bjarga málunum grípa þeir sem fyrr til sannkallaðra óyndisúrræða sem eins og nærri má geta eiga eftir að gera vonda stöðu mun verri.

screen