Ofurhetjumynd frá Affleck og Damon

sleeper-movieKvikmyndaverið Warner Bros. hefur ýtt úr vör þróun á kvikmynd eftir DC Comics teiknimyndasögunni Sleeper, í félagi við vinina Ben Affleck og Matt Damon, sem og Jennifer Todd, en þessi þrjú verða meðal framleiðenda.

Búið er að ráða handritshöfunda í verkið, sem eru þeir Shawn Ryan og David Wiener. Sleeper teiknimyndasagan er eftir Ed Brubaker og Sean Phillips sem teiknar. Sagan kom fyrst út árið 2003. Sleeper gerist í „noir“ heimi ( sbr. gamlar svart hvítar film noir kvikmyndir )  þar sem fólk fær skyndilega ofurkrafta.

Aðalpersónan er Holden Carver, maður sem getur sogað í sig sársauka og fært hann svo yfir á annað fólk, en hann laumar sér inn í glæpasamtök fyrir lögregluna. Menn fara síðan að efast um tryggð hans, sérstaklega eftir að hann verður ástfanginn af hinum mjög svo aðlaðandi morðingja, Miss Misery.