Jake Gyllenhaal næsti Batman?

Leikarinn Jake Gyllenhaal mun að öllum líkindum feta í fótspor Ben Affleck sem Leðurblökumaðurinn. Samkvæmt vefsíðunni Revenge of the Fans þá er nánast öruggt að Gyllenhaal muni taka við af Affleck þegar hann leggur leðrið á hilluna.

„Gyllenhaal verður örugglega Batman. Affleck er samt ekki hættur,“ var haft eftir heimildarmanni síðunnar. „Hann er samningsbundinn. Yfirmenn kvikmyndaversins hafa þó fengið sig fullsadda af honum. Ef Ben hættir þá tekur Jake við.“.

Affleck hefur leikið Svarta riddarann í þremur kvikmyndum ef talið er með stutta viðveru í Suicide Squad. Leikarinn hefur svo verið staðfestur í tvær nýjar kvikmyndir, The Batman og Justice League: Part Two. Affleck ætlaði sér sjálfur að leikstýra þeirri fyrrnefndu en hætti skyndilega við á síðustu stundu og var leikstjórinn Matt Reeves fenginn í starfið.

Sögusagnir um tryggð hans við hlutverkið hafa verið á kreiki frá því að hann hætti við að leikstýra myndinni. Einkalífið hans hefur einnig verið í brennidepli. Affleck skyldi við konuna sína árið 2015 og á síðasta ári fór hann í áfengismeðferð. Hann var síðan sakaður um kynferðislega áreitni af leikkonunni Hilarie Burton.

Hvað varðar Jake Gyllenhaal þá er hann með mörg járn í eldinum á þessum tímapunkti. Leikarinn er áætlaður í sex kvikmyndaverkefni á næstu tveimur árum og væri því erfitt fyrir hann að troða Batman-kvikmyndum í þessa þröngu dagskrá. Gyllenhaal hefur þó sterka tengingu við heim Leðurblökumannsins í gegnum systur sína, Maggie Gyllenhaal, sem lék Rachel í The Dark Knight eftir Christopher Nolan.

Gyllenhaal hefur ekki tjáð sig um málið og verður því forvitnilegt að sjá hvort hann muni á endanum kljást við illmenni á borð við Jókerinn í náinni framtíð.