Ástralska nýstirnið Sam Worthington hefur nú leyst sjálfa ofurstjörnuna Tom Cruise af við leik í njósnamyndinni The Tourist, en Cruise hefur hætt við að taka að sér hlutverkið.
Worthington sópar nú að sér aðalhlutverkum í stórmyndum, en bíóunnendur gátu nýverið séð hann í Terminator Salvation.
The Tourist er endurgerð á franskri mynd Anthonys Zimmer frá árinu 2005. Charlize Theron kemur nú aftur til leiks í myndinni, en hún lék í upprunalegu myndinni einnig.
Theron leikur fulltrúa alþjóðalögreglunnar Interpol sem gerir allt sem hún getur til að klófesta þann sem hún eltir, þar á meðal að nota saklausan ferðamann, sem Worthington leikur. En afhverju, jú gaurinn sem hún er að elta er fyrrum elskhugi hennar.
Leikstjóri myndarinnar verður Bharat Nalluri fyrir Spyglass Entertainment framleiðslufyrirtækið. Handrit skrifar Julian Fellowes, Bill Wheeler og Christopher McQuarrie, sem nú síðast vann við Tom Cruise myndina Valkyrie.
Að því er fram kemur á bíóvefnum Beyond Hollywood þá hafa framleiðendur The Tourist örugglega ekki grátið brotthvarf Cruise, enda hafa myndir hans undanfarið ekki náð að heilla bíógesti jafn mikið og vonast var eftir.
Framleiðsla á The Tourist hefst í janúar á næsta ári sem þýðir að Worthington þarf að fresta leik í The Candidate, sem hann hafði tekið að sér. Eða þá að hann klárar hana snöggvast og fer svo yfir í hlutverk ferðamannsins saklausa. Hver veit.

