Nýjustu mynd Edgar Wright slegið á frest

Edgar Wright, leikstjóri og handritshöfundur Shaun of the Dead, Hot Fuzz, Baby Driver og fleiri mynda, neyðist til að fresta nýjasta verki sínu, Last Night in Soho.

Greint var fyrst frá þessu í Variety en þar segir að kórónaveiran hafi ollið því að eftirvinnsla myndarinnar nái ekki upprunalega frumsýningardeginum sökum tafa. Myndin var áætluð í september á þessu ári en að svo stöddu er ekki vitað hvenær til stendur að sýna hana, en líklega verði það ekki fyrr en á næsta ári.

Mikil leynd hefur hvílt yfir framleiðslu myndarinnar en um er að ræða sálfræðitrylli sem gerist á sjöunda áratugnum. Vitað er að myndin snúist á einhvern veg um tímaflakk og spili heilmikið með tengsl fólks við nostalíu. Leikstjóri myndarinnar hefur gefið upp að myndin sæki innblástur í eldri verk Romans Polanski og kvikmyndina Don’t Look Now.

Með aðalhlutverkin í myndinni fara Thomasin McKenzie (Leave No Trace, Jojo Rabbit), Anya Taylor-Joy (The Witch, Split, New Mutants) ásamt þeim Matt Smith, Diönu Rigg og Terence Stamp.