Nýju Englarnir fundnir

Charlie er búinn að finna nýju englana sína, en þær Kristen Stewart og Naomi Scott eru nú staðfestar í hlutverk tveggja engla í endurræsingu á kvikmyndinni Charlie´s Angels, sem Pitch Perfect leikstjórinn og leikkonan Elizabeth Banks mun leikstýra.  Þriðji engillinn verður svo hin breska Ella Balinska.

Banks sjálf mun auk þess að leikstýra, leika hlutverk Bosley, en hann er einskonar milliliður á milli spæjaranna þriggja, og atvinnuveitandans Charlie, en í upprunalegu sjónvarpsþáttunum var það Dynasty leikarinn John forsythe sem talaði fyrir Charlie, sem aldrei sést í mynd.

Banks skrifaði einnig handrit myndarinnar ásamt Jay Basu.

Stefnt er að frumsýningu 27. September 2019.

Myndin mun fjalla um nýja kynslóð Engla, sem vinnur fyrir hinn dularfulla Charlie. Síðan upprunalegu kvikmyndirnar voru sýndar, með þeim Cameron Diaz, Drew Barrymore og Lucy Liu í aðalhlutverkum, þá hefur The Townsend skrifstofan vaxið umtalsvert að umfangi, og er nú orðin alþjóðleg. Hún veitir þjónustu á sviði öryggis- og upplýsingamála, til viðskiptavina um allan heim.

Upprunalegu sjónvarpsþættirnir voru sýndir á árunum 1976 – 1981, og voru með þeim Kate Jackson, Farrah Fawcett og Jaclyn Smith, í hlutverkum englanna þriggja. Fyrsta kvikmyndin kom í bíó árið 2000.

Tekjur hennar námu 264 milljónum bandaríkjadala, og í kjölfarið var gerð framhaldsmynd árið 2003, Charlie’s Angels: Full Throttle, sem gerði enn betur og rakaði inn 259 milljónum dala um allan heim.

Með nýju myndinni kemur Stewart aftur að stórri Hollywood mynd, en hún hefur einkum leikið í minni kvikmyndum síðan hún lék í Twilight myndaflokknum.

Scott, sem er lekkona og tónlistarmaður, er þekkt fyrir leik sinn í Power Rangers árið 2017.

Balinska hefur m.a. leikið í Barnaby leysir gátuna á ITV sjónvarpsstöðinni, eða Midsomer Murders.