Nýja Dumb and Dumber fer í vinnslu

Þeir Farrelly bræður hafa nú klárað draumaverkefnið þeirra um The Three Stooges, sem tók hátt í áratug að rætast, og eru því reiðubúnir að snúa sér að verkefni sem er orðið löngu tímabært; framhaldi af klassík þeirra frá árinu 1994, Dumb and Dumber. Til stendur að fá báða Jim Carrey og Jeff Daniels til að leika aftur vitleysingana Lloyd Christmas og Harry Dunne, en í febrúar á þessu ári sagði einn bræðrana, Bobby Farrelly, að þeir væru að henda á milli sín hugmyndum um afdrif félaganna tuttugu árum síðar. Líklegast munu þeir bræður leikstýra, en Sean Anders og John Morris, handritshöfundar Sex Drive, hafa verið fengnir til að skrifa handritið fyrir myndina. Jim Carrey talaði um framhaldið síðan í júní síðastliðnum á meðan að hann kynnti myndina Mr. Popper’s Penguins: „Mér finnst að ég ætti að vera í framhaldi af mynd sem ég gerði. Ég er til í að fara aftur að nokkrum myndum sem ég var í og ég er að tala við aðstandendur Dumb and Dumber framhaldsins!“. Jeff Daniels lýsti einnig áhuga sínum á að snúa aftur í mars á þessu ári og sagði meðal annars að ef að Farrelly bræðurnir væru til, ásamt Jim Carrey, væri hann til.

Hingað til hafa allir lykilmenn myndarinnar verið uppteknir við annað; Farrelly bræðurnir við Three Stooges myndina; og Sean Anders og John Morris hafa verið að leikstýra nýjustu gamanmynd Adams Sandler, I Hate You, Dad. Því er verið að keyra verkefnið af stað af þvílíkum ákafa og ef allt gengur vel ætti ekki að vera svo langt í að myndin fái að sjá dagsins ljós.