Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



Æon Flux
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Aeon Flux er hasar/vísindaskáldskapar/spennumynd, gerð eftir teiknimyndaþáttum sem sýndir hafa verið á MTV sjónvarpstöðinni. Hef ég persónulega ekki séð þættina, þannig að ég veit ekki hvernig myndin stenst í samanburði við þá. Myndin er ein af þessum hefðbundnu framtíðar myndum, 99% jarðarbúa dánir, nokkrir eftirlifendur sem lifa í fullkomnu ríki sem stjórnað er af vissum einstaklingum, og svo veggur sem umlykur allt ríkið til að ‘halda öllu fyrir utan, úti’. Og já, svo má að sjálfsögðu ekki gleyma andspyrnuhreyfingunni sem eru á móti valdhöfunum. Aðalpersónan, Aeon Flux, sem leikin er af hinni kynþokkafullu Charlize Theron, er hluti andspyrnuhreyfingarinnar, og er hún, að sjálfsögðu, sú besta í þeirra röðum. Aeon verður fyrir áfalli í byrjun myndarinnar, sökum valdhafanna, sem gerir það að verkum að það eina sem kemst að hjá henni er verkefnið fyrir höndum (eða eins og það er orðað í myndinni ‘The mission’), en það er að steypa valdhöfunum af stóli. Hún fær loksins boð um að hún eigi að koma ‘Illa formanninum’ fyrir kattarnef og snýst myndin síðan um það verkefni, eftirköst þess, og svo að komast að hver sannleikurinn á bak við heim þeirra er.

Charlize Theron tekst vel upp að túlka aðalpersónuna Aeon Flux, sömuleiðis Marton Csokas sem hinn ‘Illi formaður’. Söguþráðurinn er skemmtilegur og heilsteyptur, og þó ýmist mætti skýra betur, er það eitthvað sem skiptir litlu máli hvað söguna sjálfa varðar. Tæknibrellurnar eru alls ekki slæmar, en ekkert til að hrópa húrra fyrir svo sem. Í heildina er myndin frábær hasar- og spennumynd, fínasta afþreying. Sé maður þenkjandi, er vel hægt að spyrja sjálfan sig einhverjar siðferðislegar spurningar eftir að hafa horft á myndina, en þá verður maður að hafa eitthvað fyrir því, þær kvikna ekki að sjálfsdáðum.

Þrjár stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei