Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



How I Spent My Summer Vacation
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ekki slæm, en ekki búast við flugeldasýningu
*** Mildir Spillar (spoilers) ***

Mel Gibson er búinn að missa traust flestra í Bandaríkjunum, sem er líklega ástæða þess að hún var aðeins sýnd í Austin Texas (að því er ég best veit) fyrir virkilega áhugasama, en annars bara gefin út á DvD og til boða á VOD þjónustu. Það er ekki víst að álitið breytist mikið eftir þessa mynd, þó hún sé alveg sæmileg. Það sem gerir þessa mynd bærilega er Mel Gibson, því það er eins og það sé þægilegt að horfa á hann leika.

Í fyrsta atriðinu í skín strax í gegn að karakter Gibson‘s er þessi kaldhæðni, „oh ég nenni þessu ekki“ glæpamaður sem maður á að halda með frá upphafi. Eftir að hafa „sloppið“ frá Bandarísku lögreglunni með því að negla bílinn sinn í gegnum landamæragrindverkið og yfir á Mexíkóska grund, ákveða spilltar löggur í Mexíkó að þær vilji taka hann fastan frekar en að láta Kanana um það því hann er með bílinn fullan af seðlum. Og hefst upp frá því mikið ævintýri með okkar manni.

Myndin býður upp á nokkur ágæt atriði en það er sumt sem virkaði frekar heimskulegt. Eitt af því er sú staðreynd að krakkinn sem Driver (karakter Gibson) hittir í fangelsinu byrjar upp úr hálf-þurru að tala við hann. Móðir hans segir seinna að hann tali ekki við marga og haldi sig svolíitið útaf fyrir sig. Hann virkar frekar eins og formaður leikfélagsins í MH en andfélagslegur krakki í fangelsi. Einnig er erfitt að átta sig á því hvers vegna Driver ákveður að hjálpa drengnum, en Driver lítur út fyrir að vera nokkuð sama um annað fólk alveg frá byrjun og ekki gerir krakkinn neitt sérstakt fyrir hann sem hann þarf að endurgjalda. Var það vegna þess að Driver var leyinskytta í hernum fyrir einhverjum árum og þær vinna alltaf í tveggja manna hópum? Það hentar sögunni svo það verður víst að vera ástæðan.
En byrjun myndarinnar er lang besti hluti hennar, manni er ekki alveg sama um karakter Gibson og bíður jafnvel tiltölulega spenntur eftir því sem á eftir kemur. En þegar hasarinn eykst seinna í myndinni er ekki erfitt að missa athyglina. Það má segja að myndin missi gjörsamlega flugið þegar það líður á hana; um leið og atriðunum, sem fá áhorfendur til að klóra sér í höfðinu yfir, fjölgar.

Stundum átti ég erfitt með hlátur þegar það var án efa ekki markmið myndarinnar. Sérstaklega í einu atriðinu, þegar krakkinn var nýbúinn að segja Gibson hvers vegna hann vildi drepa bófann sem virðist ráða öllu innan veggja fangelsisins. En á það atriði er klippt og sýnd er nærmynd af krakkanum með sígarettu í munninum með þennan bráðfyndna svip; rétt áður en hann fer að segja frá því hvernig faðir hans var myrtur. Þannig að mér leið hálf illa yfir því að hafa hlegið.
En annars voru mörg fín atriði og myndin í heild er ekki móðgandi heimsk eða hlægilega léleg, langt því frá. Það er vel hægt að hafa gaman af þessari. Leikur Gibson er tiltölulega náttúrulegur og karakterinn hans virkar mannlegur, svo áhorfengur ætti að geta tengst honum. Annars hefur myndin margt af þessu venjulega og er ekkert sérstaklega ófyrirsjáanleg. Þú hefur þarna spilltar löggur, nokkra harðjaxla sem vinna fyrir stjórann, sem er fjarlægur hasarnum, og eru sendar til að taka í aðalpersónuna; einnig geðveika aulann sem er í góðri stöðu í fangelsinu vegna þess að hann hefur ættartengsl, en enginn í fjölskyldunni þolir hann, og hann þarf að sýna ómennska illsku svo allir átti sig á því að hann á ekkert gott skilið. Og svona mætti áfram telja.

Það er vel hægt að horfa á þessa. Ég mæli með henni ef þú vilt smá hasar með bærilegu plotti og ágætum karakterum en ekki búast við flugeldasýningu - 6/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei