Gagnrýni eftir:
State of Play
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Hraður pólitískur þriller State of Play er hraður pólitískur þriller þar sem mikið gerist á stuttum tíma. Ekki veitir af þeim rúmum tveimur klukkutímum sem sýningin stendur yfir þar sem handritið er byggt á sex klukkutíma breskri sjónvarpsseríu. Farið er þá skynsömu leið til að fá festu í atburðarásina að láta alla atburði gerast með beinni eða óbeinni þátttöku aðalpersónunnar Cal McAffrey (Russell Crowe).
McAffrey er harðjaxl í blaðamannastétt sem virðist hafa innkomu alls staðar í hið opinbera kerfi. Þessi innkoma hans kemur honum til góða þegar besti vinur hans, þingmaðurinn Stephan Collins (Ben Affleck) biður hann um að hjálpa sér við að komast úr miklum ógöngum, sem hann hefur lent í eftir að aðstoðarkona hans, sem hann hafði haldið við, lendir fyrir lest. Í fyrstu er talið að hún hafi framið sjálfsmorð, en ýmislegt bendir til að um morð hafi verið að ræða. McAffrey er fyrst og fremst blaðamaður og vinskapur hans við Collins og sú staðreynd að eitt sinn hélt hann við eiginkonu þingmannsins, kemur ekki í veg fyrir að hann ásamt ungri og metnaðarfullri blaðakonu fer að kryfja málið. Eftir því sem dýpra er grafið koma í ljós tengingar sem ekki eru beint til að auka vinskapinn milli þeirra félaga.
Góðir pólitískir þrillerar hafa ávallt verið í uppáhaldi og State of Play hefur marga kosti slíkra kvikmynda og fer myndin sérlega vel af stað þar sem stjórnmál og fréttamennska er í góðu jafnvægi. Það er ekki fyrr en atburðarásin verður flókin að stoðirnar fara að bresta og lausum endum fjölgar, sérlega verða pælingar blaðamannanna sundurlausar, sem örugglega hafa verið markvissari í bresku sjónvarpsseríunni. Þegar ég sat yfir State of Play þá rifjaðst smám saman upp fyrir mér að ég hafði séð bresku útgáfuna en mundi ekki það vel eftir henni að endirinn í myndinni kom mér jafn mikið á óvart og öðrum. En þegar málið er til lykta leitt og hugsað er til baka þá er ljóst að skautað hefur verið með miklum hraða yfir atburði sem tengjast og þarfnast betri útskýringa.
Russell Crove er eins og gamall hippi í útliti og er sannfærandi blaðamaður sem vill frekar ata fingur sína í prentsvertu en að skrifa í netútgáfu. Var ég einna sáttastur við myndina þegar hún gerist á ritstjórninni þar sem ekkert er verið að fela að fyrirmyndin er The Washington Post. Þar ræður ríkjum Cameron Lynne sem Helen Mirren túlkar af sinni alkunnu snilld. Ben Affleck kemst ekki eins vel frá sínu hlutverki er óvenju sviplaus stjórnmálamaður miðað við mikilvægi þess sem hann er að gera.
Í heild er State of Play ágæt skemmtun og varla hægt að sakast við leikstjórann Kevin MacDonald (The Last King of Scotland) að hún skilji eftir sig slóð ósvaraðra spurninga, leikstjórn hans er örugg. Sjálfsagt hefur eitthvað efni lent í skærunum svo tveggja tíma lengdinni yrði fullnægt.
Angels and Demons
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Verri en DaVinci lykillinn Ekki veit ég hvað gerir það að verkum að ekki hefur verið hægt að gera almennilega kvikmynd úr metsölubókum Dan Browns, Da Vinci lyklinum og Englum og djöflum. Reynsluleysi þeirra sem standa að kvikmyndunum er ekki til staðar eða léleg afrekaskrá. Í hverju rúmi er valinn maður og handritshöfundar þekktir fyrir gæða handrit, en allt kemur fyrir ekki, hvorug myndin nær að hefja sig til flugs og ef eitthvað er þá er Englar og djöflar verri kvikmynd heldur Da Vinci lykillinn.
Ef við lítum fram hjá því að Englar og djöflar er gerð eftir skáldsögu, þar sem kannski er að finna skýringar sem ekki eru fyrir hendi í myndinni, þá er ekki heil brú í sögunni. Óskiljanleg umfjöllun um andefni í upphafi myndarinnar sem gerir andefni óskiljanlegra en það er í rauninni, er aðeins byrjunin á fantasíu atburðarás sem hefur akkúrat engan trúverðugleika og var alveg óþarfi fyrir Páfagarð að vera að mótmæla myndinni, enginn maður með viti trúir því sem fram er borið. Ef við svo lítum til skáldsögunnar og teljum að þar hafi verið skýringar sem hefðu gert myndina trúverðugri þá erum við komnir að Hollywoodlausninni sem virðist oft heppnast þegar nægir peningar og miklir hæfileikar renna saman, það er að keyra á hasarinn á kostnað trúverðugleika, láta myndina renna í gegn á ofsahraða þannig að áhorfandinn hefur lítinn tíma til að hugsa fyrr en eftir að sýningu lýkur.
Segja má að þarna standi myndin nokkuð vel að vígi, atburðarásin er mjög hröð og spennandi er að fylgjast með öllum táknunum sem segja táknfræðingnum Robert Langdon (Tom Hanks) hvar hann á að leita fjögurra kardínála sem hefur verið rænt og nýtur hann aðstoðar lífræðingsins Vittoriu Vetra (Ayalet Zuret) sem komin er til Vatikansins til að tilkynna um stuld á andefninu sem á að nota til að sprengja Vatikanið í loft upp. Saman eru þau alfræðiorðabók í sögu Vatikansins.
Englar og djöflar er trúverðug að einu leyti. Mjög vel hefur tekist til með að byggja leikmyndina en bannað var að kvikmynda í Vatikaninu og hefði ég ekki vitað betur þá hefði vel verið hægt að sannfæra mig að hún væri tekin á söguslóðum. Leikarar eru einnig ágætir, Tom Hanks passar vel í hlutverk prófessorsins þó ég sjái hann ekki beint fyrir mér fara í sund klukkan 5 á hverjum morgni og taka sundsprett sem Michael Phelps hefði getað verið stoltur af. Stellan Starsgard, Armin Mueller-Stahl og Ewan McGregor sem eru í hlutverkum starfsmanna Vatikansins eru góðir en Vittoria Vetra er ekki sannfærandi, er eins og hún sé feimin við að vera í nálægð stórstjörnunnar Tom Hanks.
Þegar á heildina er litið er Englar og Djöflar alls ekki slæm skemmtun svo framarlega sem slökkt er á heilabúinu meðan á sýningu stendur. Í upphafi var því velt upp af hverju væri ekki hægt að gera góða kvikmynd eftir skáldsögum Dan Browns og kannski er svarið með Engla og Djöfla að skáldsagan er ekki nógu innhaldsrík til að hægt sé að gera góða kvikmynd án þess að gera miklar breytingar, sem ekki hefur verið gert.