Gagnrýni eftir:
Super Size Me
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ég fór að sjá myndina SUPER SIZE ME eftir Morgan Spurlock. Búið var að fjalla mikið um myndina í fjölmiðlum og því var ég nokkuð spenntur. Ég var í heildina mjög ánægður með myndina, sem er náttúrulega einkaframtak og kostaði aðeins 65.000 dollara. Auðvitað verður myndin ekki tæknilega fullkomin fyrir þá upphæð, en það var samt ótrúlegt hvað hægt er að gera fyrir lítinn pening. Það sem stendur náttúrulega upp úr myndinni er boðskapurinn: Hugsaðu um það sem þú lætur ofan í þig.
Spurlock ákvað að borða ekkert nema McDonald's í heilan mánuð, 3 máltíðir á dag. Hann var að fá sér a.m.k. einu sinni allt sem var á matseðlinum, hann mátti ekki borða neitt sem ekki var selt á McDonald's og ef honum var boðið að stækka máltíðir (Super size) þá varð hann að þiggja það. Það sem kom mér á óvart var að Spurlock breyttist ekki mikið útlitslega. Hins vegar hafði þetta fæði verulega slæm og hættuleg áhrif á líkamann, ekki síst lifrina.
Það sem vakti ánægju mína var líka að það var heilmikill fróðleikur og húmor í myndinni. Hún gekk ekki bara út á að sýna Spurlock éta, heldur var tekið viðtal við fullt af sérfræðingum og fjallað á skemmtilegan hátt um skyndibitakynslóðina.
Að mínu mati eiga allir að sjá þessa mynd, það á að sýna hana í sjónvarpi og öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Hún hafði veruleg áhrif á mig og ég mæli með henni.