Náðu í appið
Gagnrýni eftir:



GoodFellas
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Myndin gerist á 6 og 7. áratugnum í USA og fjallar um mafíugrúbbu sem stundar rán og aðrar vafasamar aðferðir til að auðgast. Eins og sönnum mafíósum sæmir beita þeir allskyns bellibrögðum, múta löggunni, dómurum og öllum sem hægt er að múta. Ray Liotta leikur Henry Hill, einn gangsterinn sem fær vinnu sem ungur drengur hjá klíkunni og vex upp þangað til hann er orðinn einn af stórlöxunum. Þeir fara um rænandi og ruplandi og verða brátt vellauðugir. Svo kemur að stærsta ráninu þeirra sem gengur mjög vel en eftir það fer allt handaskolum.


Myndin er byggð á sannri sögu eftir Nicolas Pileggi sem hefur skrifað bækurnar City Hall og Casino sem báðar voru kvikmyndaðar og svo skrifaði hann einnig handritið að Casino. Mér finnst þessi mynd lélegri en þær tvær og í raun bara ekki góð. Söguþráðurinn er lélegur, hún er langdregin og nær aldrei þessum alvöru mafíufíling eins og Guðfaðirinn, Donnie Brasco o.fl mafíumyndir. Þetta er meira bara svona einhver ræningja og gangsteramynd. Auk Ray Liotta leika Joe Pesci og Robert De Niro einnig stór hlutverk.


Leikstýringin er í höndum Martins Scorsese sem er nú orðinn gamall í hettunni og þrátt fyrir að vera stórt nafn þá hef ég aldrei almennilega fílað myndirnar hans, hans blómaskeið er kannski liðið en ég hef reyndar ekki séð Gangs of New York sem er víst mjög góð. En ég var ekki ánægður með þessa mynd og mæli ekki með henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Shining
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fjallar um rithöfundinn Jack Torrance sem leikin er af Jack Nicholson sem tekur að sér að vera húsvörður á Overlook hótelinu í fjöllum Colorado yfir vetrartímann. Jack á konu sem heitir Wendy og lítinn strák sem heitir Danny. Þau dvelja þrjú saman yfir veturinn í risastóru hótelinu. Danny er skyggn og hefur sterkt sálarljós eða shining. Hann fer fljótlega að sjá ljóta og ógeðslega hluti gerast á hótelinu og finnur að ekki er allt með felldu. Endar svo með því að Jack fer einnig að sjá hluti eins og t.d. partý í veislusalnum og spjallar við látið fólk. Hann lendir á spjalli við mann sem hafði áður verið húsvörður á hótelinu og hafði drepið konu sína, tvær dætur og svo sjálfan sig í leiðinni. Jack verður svo endanlega geðveikur og ætlar sér að drepa konu sína og strák.


Myndin er byggð á sögu Stephen Kings og las ég bókina sem var algjör snilld og varla veikan blett á henni að finna. Ég varð hins vegar fyrir miklum vonbrigðum með myndina og getur það orsakast af því að ég las bókina á undan. Mér finnst margt virkilega lélegt í myndinni. Fyrir það fyrsta þá fannst mér lélegt að Tony, strákurinn sem Danny sá í bókinni og sagði Danny frá mörgu, skyldi vera í munninum á Danny, þ.e. hann talaði fyrir Danny í stað þess að Danny sæi hann. Einnig fannst mér mjög lélegt að nánast enginn inngangur var að fjölskyldunni áður en hún hélt á hótelið. Ekkert minnst á drykkjuvandamál og geðsveiflur Jacks sem voru í bókinni, og einnig hefði mátt vera meira fjallað um aðdraganda þess að Jack verður geðveikur. T.d í bókinni var honum neitað að skrifa bók um hótelið og við það varð hann alveg tjúllaður, ásamt svo fleiri atriðum. Áhorfandinn veit nefnilega ekki betur en að Jack sé heilbrigður þegar þau fara að sjá um hótelið og mér finnst það svolítið langsótt að ætla að hann verði alveg snargeðveikur á rúmum einum mánuði og ekkert er farið útí ástæður þess, hann verður bara alltíeinu geðveikur!


Jack Nicholson fer samt mjög vel með hlutverk sitt í þessari mynd, eins og nánast alltaf, hann klikkar ekki. Mér finnst þetta samt ekki besta frammistaða hans, fannst mér hann t.d. betri í Gaukshreiðrinu og As Good As it gets.


Myndin er samt mjög scary og var ég mjög ánægður með tónlistina í myndinni, hún magnaði upp spennuna og gæsahúðina sem maður fékk! Mér finnst samt sem áður að mun betur hefði mátt gera og varð því fyrir nokkrum vonbrigðum, sérstaklega út frá bókinni. Leikstjórnin var þó í góðum höndum snillingsins Stanley Kubricks og klikkar hann nánast aldrei. Einnig var ég mjög ánægður með endinn, fannst hann virkilega góður.



Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei