Nolan leikstýrir Batman 3

Stórmyndaleikstjórinn Christopher Nolan mun leikstýra Batman 3, framhaldi The Dark Knight, samkvæmt nýjustu fregnum úr Hollywood. Þetta kemur þó ekki alfarið á óvart, en hefur þó aldrei verið staðfest fyrr en nú. Nolan leikstýrði einnig The Dark Knight.

Nolan er funheitur þessa dagana eftir gerð Inception sem er enn hátt á vinsældarlistum um allan heim, þó hún hafi verið frumsýnd um mitt sumar.

Þessi staðfesting kom fram í spjalli kvikmyndaritsins Empire Online við Nolan á dögunum. Blaðamaður spyr leiksjórann hvort óhætt sé að spyrða hann við Batman 3 og Nolan svarar: „Ég held að það sé óhætt núna.“

Nolan sagði einnig að það væri óumflýjanlegt og hann væri að sogast inn í verkefnið. Þó svo hann hafi ekki upplýst um það opinberlega, þá…“held ég að allir viti eins og staðan er í dag að ég mun leikstýra þessari mynd.“

Af öðrum fregnum af þessari mynd er það að segja að breski stórleikarinn Michael Caine sagði á The Chris Moyles Show á BBC Radio 1 á miðvikudag að hann héldi að tökur á myndinni myndu hefjast í maí nk. og að hann byggist við því að leika hlutverk í myndinni. Engar frekari fregnir hafa enn borist af leikaravali eða söguþræði.