Nolan frumsýndi Tenet kitlu í Bandaríkjunum

Kvikmyndaleikstjórinn Christopher Nolan hefur birt fyrstu kitluna fyrir næstu mynd sína Tenet. Breska blaðið. The Independent segir frá því að bíógestir í Bandríkjunum, sem mættir voru til að horfa á nýju Fast & Furious: Hobbs & Shaw myndina, hefðu orðið þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi að sjá 40 sekúndna bút, úr njósnamynd Nolan, sem frumsýnd verður í júlí á næsta ári.

Tenet leikarar ásamt leikstjóranum Christopher Nolan.

Kitlunni, sem enn er ekki komin á netið, er lýst sem ráðgátu. Í henni sáu bíógestir aðalleikarann John David Washington ( BlacKkKlansman ), vera að rannsaka tvö kúlugöt í rúðu.

„Það er kominn tími á nýja aðalpersónu,“ stóð á skjánum, og svo sást Washington, íklæddur búningi óeirðalögreglumanna, í ýmsum svipuðum hreyfingum. „Það er kominn tími á nýja herferð.“

Búturinn endar á því Washington sést með súrefnisgrímu, rétt áður en merki myndarinnar, skrifað „TENƎꓕ“ birtist á tjaldinu, og þar með hægt að lesa það bæði afturábak og á hvolfi.

Í kitlunni er klár tilvísiun í tímahugtakið, auk þess sem leikið hafa út myndbönd þar sem svo virðist sem leikstjórinn sé að reyna að taka kvikmyndina upp afturábak. Það er amk. ljóst nú þegar að Tened verður jafn hugarvíkkandi og djörf og fyrri myndir hans, Inception og Interstellar.

Samkvæmt fyrri fréttum sem ættaðar eru úr eistneska miðlinum ERR, Estonian Public Broadcasting, þá er framleiðslukostnaður myndarinnar 225 milljónir bandaríkjadala, sem þýðir að myndin verður ein allra dýrasta kvikmynd allra tíma.

Aðrir helstu leikarar eru Robert Pattinson, Elizabeth Debicki, Dimple Kapadia, Aaron Taylor-Johnson, Clémence Poésy, Michael Caine og Kenneth Branagh.

Frumsýning hér á Íslandi og annars staðar er áætluð 17. júlí, 2020.

Enn er óljóst hvenær Warner Bros. framleiðslufyrirtækið hyggst skella kitlunni á netið.