Nicole Kidman verður Grace Kelly

Ástralska leikkonan Nicole Kidman er sögð hafa samþykkt að taka að sér hlutverk þokkagyðjunnar Grace Kelly í kvikmyndinni Grace of Monaco. Olivier Dahan leikstýrir myndinni, en hann leikstýrði síðast La vie en rose.

Grace Kelly varð þekkt leikkona í Hollywood ung að aldri og lék m.a. í myndum eins og Rear Window og The Country Girl sem hún hlaut Óskarsverðlaun fyrir árið 1955. Hún settist í helgan stein sem leikkona aðeins 26 ára gömul og giftist Rainier III sem var á þeim tíma furstinn af Mónakó. Hún var þekkt sem prinsessan af Mónakó frá þeim degi þar til hún lést í bílslysi árið 1982.

Grace of Monaco gerist á milli 1961 og 1962 og fjallar um Kelly sex árum eftir að hún sagði skilið við Hollywood og leikferilinn. Þar tekst hún við, ásamt eiginmanni sínum, ýmis vandamál í tengslum við skattlagningu á þegnum og fyrirtækjum landsins, en á þeim tíma höfðu hjónin í raun aðeins hálft ár til þess að endurskipuleggja skattkerfi Mónakó.

Eins óspennandi og söguþráðurinn hljómar þá var hlutverkið eitt það eftirsóttasta í Hollywood þar til Kidman tók lokaskrefið í samningaviðræðunum. Orðið á götunni er að Kidman sé að reyna að næla sér í Óskarsverðlaun númer tvö, en eins og flestir vita þá hlaut hún Óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt í The Hours árið 2002.

Grace of Monaco kemur út árið 2014.

Ég er örlítið spenntur fyrir þessari. La vie en rose var frábær og mér hefur alltaf fundist Grace Kelly stórkostleg eftir að hafa séð hana í Hitchcock myndunum. Kidman hefur mér alltaf fundist frekar óspennandi leikkona (óspennandi, ekki slæm) þannig að ég vona að hún klúðri þessu ekki.