Í september verða stór tímamót hjá Myndum mánaðarins, því þá kemur 200. tölublaðið frá upphafi út. Hefur það verið gefið samfellt út mánaðarlega síðan í febrúar 1994 og er því að verða 16 og hálfs árs. Af því tilefni verður gefið út risastórt tímamótablað, sem verður flottasta kvikmyndablað Íslandssögunnar og eitt stærsta tímarit sem hefur verið gefið út á Íslandi frá upphafi.
Í því mun kenna ýmissa grasa og verður blaðið fullt af efni sem sést venjulega ekki í blaðinu, en það flottasta verður án efa listi yfir 100 bestu myndir allra tíma eins og Íslendingar sjá kvikmyndasöguna. Þar gefst lesendum vefsins Kvikmyndir.is kostur á að velja sínar 5 uppáhaldsmyndir, þar sem efsta sætið gefur 5 stig, annað sætið 4 stig, það þriðja 3 stig og svo framvegis. Kosningin er þegar hafin á vefnum og verður í gangi út júlímánuð.
Við hvetjum því alla til að velja sínar uppáhaldsmyndir og láta sitt álit telja í 200. tölublaðinu! Látið líka vini ykkar vita, og látið þá láta vini sína vita, og látið þá láta vini sína láta – þið vitið hvað ég meina. Við viljum helst að hvert einasta mannsbarn á Íslandi segi sitt álit. Svo munu heppnir þátttakendur vinna einhverja flotta vinninga að auki…

